Innlent

Tafir á merkingum hjá Strætó valda ruglingi

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Strætó ekur nú um Sæbraut í stað Hverfisgötu.
Strætó ekur nú um Sæbraut í stað Hverfisgötu. MYND/STRÆTÓ

Sumaráætlun Strætó tók gildi í gær, en átta leiðir ganga nú á hálftíma fresti. Þá er Strætó hættur að ganga Hverfisgötu um óákveðin tíma vegna stórtækra framkvæmda sem hefjast þar í sumar og ekur nú um Sæbraut í staðinn.

Til stendur að setja upp tvær nýjar biðstöðvar við Hörpu og aðra við Sólfarið, en samkvæmt upplýsingum fréttastofu hafa orðið tafir á þeim framkvæmdum. Strætisvagnarnir stoppa því í ómerktum útskotum sitthvoru megin við tónlistarhúsið þar sem mjög erfitt er að sjá að um biðstöð sé að ræða. Þá hafa orðið einhverjar tafir á uppfærslu snjallsímaforrits Stætó.

„Það urðu tafir á merkingunum þar sem leiðin færðist fyrr en gert var ráð fyrir. Þetta hefur valdið einhverjum misskilningi hjá vagnstjórum og farþegum en merkingarnar ættu að verða komnar upp í fyrramálið. Eins eru hitalagnir og fleira sem þarf að gæta að þegar biðskýlin eru sett upp,“ segir Jón Halldór Jónasson, upplýsingafulltrúi hjá Reykjavíkurborg.

Á heimasíðu Strætó kemur fram að helstu breytingar sem verða á akstri eru að leiðir 2, 11, 12, 13, 14, 15, 24 og 28 skipta yfir á hálftíma tíðni yfir sumartímann. Leiðir 1, 3, 6, 11, 12 og 13 aka upp og niður Snorrabraut að/frá Sæbraut og eftir Sæbraut og Kalkofnsvegi við Hörpu til og frá Lækjartorgi. Engin breyting verður á tíðni á öðrum leiðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×