Innlent

Vona að ríkisstjórnin hafi kjark til að standa í lappirnar

Boði Logason skrifar
Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri Grænna, á Alþingi í kvöld.
Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri Grænna, á Alþingi í kvöld. Mynd/Stefán

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri Grænna, sagði við setningu sumarþings á Alþingi í kvöld að hún hefði átt von á skýrari skilaboðum frá nýrri ríkisstjórn um aðgerðaáætlun í skuldamálum.

Þá sagðist hún einnig vona að efnt verði til þverpólitískrar samvinnu í skuldamálunum.

Þá kom hún inn á stjórnarskrármálið sem verður lagt fyrir sumarþingið á næstu dögum. „Ég treysti því að allir þingmenn séu reiðubúnir að taka þátt í þessari vinnu enda ljóst að það er margt sem þarf að skýra í stjórnskipan landsins þegar því er haldið fram að forseti lýðveldisins fari með svokölluð fullveldismál og leggi línurnar í samskiptum Íslands við önnur ríki," sagði hún.

Og benti á að fræðimenn hafi nú þegar bent á að þessi túlkun standist ekki skoðun. „Og það vekur auðvitað upp spurningar um það hvaða afleiðingar það hefur þegar stofnanir samfélagsins viðurkenna með beinum eða óbeinum hætti grundvallarbreytingar á lögskýringum, siðum og venjum þannig að upplausnarástand skapast - ég tel ljóst að hér þurfi þingið að taka til verka og ljúka við endurskoðun stjórnarskrárinnar þannig að grunnur samfélagsins sé sterkur og skýrt skilgreindur."

Katrín endaði svo ræðu sína á því að hún hafi lært í þáttöku sinni í stjórnmálum að Íslendingar séu bjartsýnir, skynsamir, kjarkmiklir og hugrakkir.

„Um það þarf ný ríkisstjórn ekki að efast. En hvernig beitum við þessum eiginleikum í störfum okkar? Við þurfum einmitt að beita rökum en ekki sleggjudómum, dreifa byrðunum af skynsemi, huga að hagsmunum barnanna okkar þegar kemur að umgengni við auðlindir og umhverfi og við þurfum að þora að feta nýjar leiðir, setja ekki öll eggin í sömu körfu og vera óhrædd við að synda á móti straumi. Síðast en ekki síst þarf kjark til að standa í lappirnar með almannahag að leiðarljósi, en stjórnast ekki bara af þröngum sérhagsmunum. Við skulum vona að ný ríkisstjórn hafi kjark til þess því til þess erum við hér, til að vinna fyrir almenning í landinu,“ sagði Katrín.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×