Innlent

Björgvin Páll slapp naumlega frá flóðunum: "Neðsta hæðin í húsinu mínu var komin undir 30 cm vatn“

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Á myndinni sést neðsta hæð hússins þar sem Björgvin Páll bjó í Magdeburg.
Á myndinni sést neðsta hæð hússins þar sem Björgvin Páll bjó í Magdeburg.

„Ástandið var orðið mjög slæmt þegar ég fór á laugardaginn og til dæmis var neðsta hæðin í húsinu þar sem ég bjó komin undir 30 cm vatn. Ég flutti út úr húsinu þremur dögum áður en flóðin hófust og slapp því persónulega mjög vel. Tveir aðrir leikmenn þurftu að rýma húsin sín og einn varð að lifa án rafmagns í tvo daga,“ segir handboltamaðurinn Björgvin Páll Gústavsson um ástandið í þýsku borginni Magdeburg. Hann hefur verið búsettur þar síðustu tvö ár og spilað með liðinu SC Magdeburg.

Björgvin yfirgaf borgina síðastliðinn laugardag til að hitta íslenska landsliðið á öðrum stað í Þýskalandi. Hann segir borgina hafa lamast í flóðunum og að skaðinn sé gríðarlegur. Hætt var við síðasta leik liðsins á tímabilinu vegna ástandsins, en leikmenn ákváðu að kraftar þeirra yrðu betur nýttir í að hjálpa fólki á götum úti við að takmarka skaðann. „Það var ótrúlegt að sjá alla þessa sjálfboðaliða hlaupa milli staða til að hjálpa til og við vildum taka þátt í því. Allt liðið fór á eina tólf tíma vakt þar sem við fylltum sandpoka og bárum þá til að mynda varnarveggi við þá staði sem voru í mestri hættu. Vaktinni lauk kl 4:30 um nótt og daginn eftir þurfti ég að stinga af til að hitta landsliðið, en hinir voru áfram á vakt næstu tvo sólarhringa,“ segir Björgvin.

Tuttugu og þrjú þúsund  íbúar þurftu að yfirgefa heimili sín í Magdeburg eftir að stífla brast í ánni Elbu í síðustu viku. Björgvin segir vatnshæðina hafa farið 7,5 metra þegar mest var en að nú sé ástandið smám saman að komast í eðlilegt horf.

Að minnsta kosti átján manns hafa farist í flóðunum í Mið-Evrópu og er talið að tjónið nemi milljörðum evra.  




Fleiri fréttir

Sjá meira


×