Innlent

Almenningshagsmunir ættu að vera hafðir að leiðarljósi við orkusölu

Karen Kjartansdóttir skrifar

Almenningshagsmunir verða að vera hafðir að leiðarljósi við sölu á raforku en erfitt er að sjá að það hafi verið gert þótt kveðið sé á um það í lögum. Svo virðist sem lögin hafi verið tekin beint upp frá Evrópusambandinu. Þetta kom fram í máli Stefáns Arnórssonar, prófessors við Háskóla Íslands og stjórnarmanns í Landsvirkjun á fundi þriggja nefnda á Alþingi í dag.

Boðað var til sameiginlegs fundar atvinnu-, samgöngu-, og umhverfisnefndar Alþingis í morgun til að fjalla um stöðu Hellisheiðarvirkjun. Á fundinn voru einnig boðaðir gestir frá fjölda stofnana og fyrirtækja sem koma að nýtingu og rannsóknum á jarðvarma.

Stefán Arnórsson, prófessor í jarðefnafræði og stjórnarmaður í Landsvirkjun, segir að Alþingi þurfi að breyta lögum sem tengjast orkufyrirtækjum til dæmis um mat á umhverfisáhrifum en hann segir lög um þau alls ekki henta jarðhita þar sem þau geri ekki ráð fyrir öllum þeim óvissuþáttum sem tengjast þeirri orkuöflun.

Einnig segir hann þörf á að breyta raforkulögum frá 2003 en í þeim segir að almannahagsmunir eigi að vera hafðir að leiðarljósi. „Ég skil nú ekki hvernig það er hægt þegar yfir 80 prósent af seldri raforku í dag fer til stórnotenda nema þá að það væri hægt að selja raforkuna með þeim hagnaði að það væri hægt að greiða eitthvað til nærsamfélagsins, það er að segja í nágrenni virkjananna, og fjærsamfélagsins, það er að segja þjóðarinnar í heild og þá ríkisins. Þá væri almannahagsmunum borgið og menn ættu að skoða þetta en ekki taka þetta beint upp úr lögum frá Evrópusambandinu," segir Stefán.

Á fundinn mættu einnig Bjarni Bjarnason, núverandi forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur, og Guðmundur Þóroddsson, fyrrverandi forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur. Þá greinir á um hvernig eigi að afla orkunnar sem upp á vantar. Núverandi vill nýta orku í Hverahlíð en sá fyrrverandi segir umræðuna öfugsnúna umhverfisvernd gegn álverum og vill fleiri viðhaldsholur við Hellisheiðarvirkjun en gallinn er sá að þar eru þegar fjöldi af lítið virkum holum. Mikið fé þarf til að bora hverja og eina holu þótt lítil vissa sé um það hvort hún komi nokkur tímann til með að nýtast.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×