Innlent

Facebook opnar útibú í Svíþjóð

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Facebook - fingurinn frægi var steyptur í ís í tilefni af opnum útibúsins í Svíþjóð.
Facebook - fingurinn frægi var steyptur í ís í tilefni af opnum útibúsins í Svíþjóð. MYND/FACEBOOK

Facebook greindi frá því í dag að fyrirtækið hefði opnað sitt fyrsta netþjónaútibú utan Bandaríkjanna í Luleå í Norður - Svíþjóð. Útibúið, sem er það stærsta sinnar tegundar í Evrópu, mun annast gagnaflutninga fyrir Facebook í heimsálfunni.

Luleå varð fyrir valinu vegna þess að staðsetningin hentaði einstaklega vel, en bærinn er staðsettur 100 kílómetrum suður af Norðurheimskautsbaug. Kalda loftið er notað til kælingar fyrir viðkvæman tæknibúnað, en meðalhitinn á svæðinu er aðeins 2 gráður á selsíus. Þá sé auðsótt að framleiða rafmagn til rekstursins með stíflum í ánni Lule, auk þess sem þéttriðið net ljósleiðarastrengja liggi til megilands Evrópu frá Luleå.

Þetta er þriðja netþjónaútibú Facebook til þessa. Önnur útibú eru í Prineville í Oregon og í Forest City í Norður- Karólínu. Útibúið í Svíþjóð er að sjálfsögðu komið með sína eigin Facebook -síðu sem rúmlega 9.700 manns hafa látið sér líka við.

Þetta kemur fram á vefsíðu The Next Web.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×