Innlent

Minkaveiðimannsins leitað ákaft

Heimir Már Pétursson skrifar
Frá leitinni í gær. Þegar mest hefur verið hafa 70 til 80 manns leitað minkaveiðimannsins sem féll í Hjaltadalsá.
Frá leitinni í gær. Þegar mest hefur verið hafa 70 til 80 manns leitað minkaveiðimannsins sem féll í Hjaltadalsá. Pjetur

Um 40 björgunarsveitarmenn leituðu minkaveiðimannssins sem féll í Hjaltadalsá fram á miðnætti í nótt. Þorsteinn Guðmundsson í svæðisstjórn björgunarsveitanna segir að formleg leit hefjist að nýju um klukkan tíu í dag.

"Þá munum við fara í rannsóknarvinnu með rekald sem við ætlum að láta reka niður ána til að reyna að vinna okkur eitthvað áfram," segir Þorsteinn. Með því verði kannað hvernig manninn gæti hafa borið niður eftir ánni og eins hvernig straumar liggja neðan við ána úti í sjó.  Til að byrja með verða tveir til þrír hópar að störfum í dag, eða um fimmtán manns.

"Við bætum svo í seinnipartinn í dag þegar búið er að vinna þessa vinnu. Þá verðum við með tuttugu til tuttugu og fimm manns," segir Þorsteinn. Staðan verði svo tekin að nýju um klukkan fjögur í dag þegar þessari rannsóknarvinnu verði lokið.

Leitin að manninum undanfarna tæpa tvo sólarhringa hefur verið mjög umfangsmikil.

"Já, hún er búin að vera mjög mikil. Þetta hafa verið allt að 70 til 80 manns þegar mest hefur verið. Það dró aðeins úr þessu í gærkvöldi en það var líka vegna veðurs. Það var erfitt í sjó, komin norðanátt og þungt í sjóinn," sagði Þorsteinn Guðmundsson í svæðisstjórn björgunarsveita snemma í morgun.

Veðrið er ágætt nú í morgunsárið og sól á lofti. Það spáir aftur á móti norðanátt út vikuna og þá fari yfirleitt að hvessa um hádegisbil.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×