Innlent

„Við erum að deyja úr velmegun en ekki sjúkdómum"

Jóhannes Stefánsson skrifar
Lífstílstengdir sjúkdómar verða sífellt fleiri að aldurtila í hinum vestræna heimi og hreyfiseðlum er ætlað að sporna við þróuninni.
Lífstílstengdir sjúkdómar verða sífellt fleiri að aldurtila í hinum vestræna heimi og hreyfiseðlum er ætlað að sporna við þróuninni. Mynd/ Arnar Halldórsson

Nú geta þeir sem þarfnast læknisþjónustu á höfuðborgarsvæðinu og á Akureyri átt von á því að verða ávísað svokölluðum hreyfiseðli í stað hefðbundins lyfseðils.

SÍBS hefur hrint af stað tveggja ára tilraunaverkefni í samstarfi við heilbrigðisyfirvöld á höfuðborgarsvæðinu og Akureyri. Guðmundur Löve, framkvæmdastjóri SÍBS, segir um verkefnið: „Þetta snýst um að gangasetja skandinavískt módel hérna á Íslandi sem að býður upp á þann valkost að skrifa út hreyfiseðil í stað lyfseðils við ýmsum kvillum sem að hrjá fólk og er kannski betra að lækna með öðru heldur en pillum. Ráðleggingar um hreyfingu og holla lífshætti eru að verða stærri og stærri þáttur í heildstæðri meðferð hjá heilsugæslunni og hreyfiseðilsverkefnið er lóð á þá vogarskál."

Aðspurður að því í hvaða tilfellum kæmi til greina að beita úrræðinu segir Guðmundur: „Það er til í dæminu að ýmsir kvillar eins og stoðkerfisvkillar og verkjavandamál og ýmislegt fleira sé hreinlega betur meðhöndlað með hreyfingu heldur en verkjalyfjum því að með verkjalyfjum kemstu ekki fyrir orsökina að vandanum en það gerir þú hinsvegar með því að hreyfa þig og með réttri eftirfylgni og ráðgjöf þá getur hreyfiseðillinn skilað betri árangri í vissum tilfellum heldur en lyfseðillinn."

Guðmundur segir fólk á vegum SÍBS nú aðstoða lækna við að innleiða úrræðið.

„Ætlunin er koma því inn í verkfærasettið hjá læknum að ávísa hreyfiseðli þannig að þetta úrræði þróist smám saman yfir í það að verða eðlilegur og sjálfsagður þáttur af læknisverkum og aðkomu breiðs hóps sérfæðinga hjá heilsugæslunni að málefnum sjúklinga. Staðreyndin er sú að við erum að deyja úr velmegun en ekki vannæringu eða sjúkdómum lengur og það er þörf á miklu víðtækari úrræðum í heilsugæslunni," segir Guðmundur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×