Innlent

Fjársvik, fals og furðuleg símtöl

Jakob Bjarnar skrifar
Fólk kvartar unnvörpum til lögreglu undan ágangi svikahrappa sem beina nú spjótum sínum að saklausum tölvunotendum.
Fólk kvartar unnvörpum til lögreglu undan ágangi svikahrappa sem beina nú spjótum sínum að saklausum tölvunotendum.

Svo hljóðar tilkynning frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu sem varar tölvunotendur við svikahröppum sem fara nú mikinn.

"Af gefnu tilefni viljum við ítreka að lögreglu berast reglulega tilkynningar frá fólki þar sem fram kemur að verið sé að reyna að hafa af þeim fé með svikum og prettum. Flestir átta sig fljótt á að þarna er um svindl að ræða en því miður eru enn of margir sem láta tilleiðast og falla í þá gryfju að láta upplýsingar, kortanúmer eða peninga af hendi," segir í tilkynningunni sem birtist á Facebook.

Auk þess kemur fram að á síðastliðnum vikum og mánuðum hefur borið mikið á því að fólki berist ýmiskonar "gylliboð í símtölum, bréfasendingum eða tölvupóstum um:

lán á ótrúlega hagstæðum kjörum

arf eftir fjarskyldan "ættingja" sem hugsanlega hefur borið sama föðurnafn og látið eftir sig milljónir í erlendu fé td.

lottó eða happadrættisvinninga

aðstoð við vírusa í tölvum

leigu á íbúðum sem síðar, eftir greiðslu staðfestingargjalds, kemur í ljós eða eru ekki til leigu

bílar til sölu - þar sem eigandi er erlendis - getur ekki sýnt hann vegna fjarstæðukenndra ástæðna.

O.fl. o.fl."

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu vill enn og aftur hvetja fólk til að hunsa allar slíkar beiðnir frá ókunnum aðilum, því; "ef tilboð er of gott til að vera satt, er það oftast ekki satt og vísast einhver óprúttinn aðili að reyna að hafa fé af fólki. Við hvetjum alla sem verða fyrir tjóni af völdum slíkra svika að tilkynna slíkt til lögreglu."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×