Innlent

Leit frestað fram á laugardag

Frá leitinni í gær.
Frá leitinni í gær. Mynd/Pjetur
Björgunarsveitir hafa nú síðdegis og í kvöld haldið áfram leit að manni í og við Hjaltadalsá.

Hefur hún enn engan árangur borið. Gengið var með árbakkanum og leitað í fjörum við ósinn. Einnig voru sett út tvö reköld. Að þessu sinni staðnæmdust þau í ánni en fóru ekki út í sjó eins og þau sem sett hafa verið í ánna síðustu daga. Ástæðan gæti verið sú að rennsli í ánni hefur minnkað nokkuð.

Tekin hefur verið ákvörðun, í samráði við lögreglu, að gera hlé á leitinni á morgun, föstudag, en verið er að skipuleggja umfangsmeiri aðgerðir á laugardag.

Vonast er til þess að þá verði hægt að setja mannskap út í ána til að leita hana enn betur en hingað til hefur verið hægt þar sem straumur hefur gert leitarfólki erfitt um vik. Einnig á að ganga með ánni og  fjörur frá Garðssandi að Hofsósi.

Leit er enn erfið á sjónum fyrir utan ósinn þar sem norðanáttinni fylgir nokkur alda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×