Innlent

Reynslubolti í formannsstól SSÁ

Jakob Bjarnar skrifar
Arnþór Jónsson er nýr formaður SÁÁ, sannkallaður reynslubolti sem setið hefur í stjórn í 17 ár.
Arnþór Jónsson er nýr formaður SÁÁ, sannkallaður reynslubolti sem setið hefur í stjórn í 17 ár. Jakob Bjarnar
Nýr formaður SÁÁ var kjörinn á aðalfundi samtakanna sem fram fór í gær. Gunnar Smári Egilsson, fráfarandi formaður, gaf ekki kost á sér og var Arnþór Jónsson kjörinn nýr formaður. Að auki var kosin ný framkvæmdastjórn SÁÁ en í henni sitja auk formanns, Ari Matthíasson, Björn Logi Þórarinsson, Heiður Gunnarsdóttir, Hekla Jósepsdóttir, Jón H. Snorrason, Maríus Óskarsson, Sigurður Friðriksson og Theodór S. Halldórsson.

Á fundinum voru samþykktar lagabreytingar sem ganga út á að taka til baka þær skipulagsbreytingar sem gerðar voru fyrir ári sem skiptu samtökunum upp í fimm sjálfstæðar rekstrareiningar, sem voru með sjálfstæðan fjárhag og stjórnir. Og sat sami formaður í þeim öllum, sem var fráfarandi formaður. Ákveðið var að hverfa aftur til skipulags sem var og telja menn að þannig fáist skilvirkari stjórnun og betri yfirsýn yfir heildarfjárhag samtakanna.

Fram kom á fundinum að mörgum er eftirsjá af Gunnari Smára enda hefur hann í sinni formannstíð víkkað ásýnd samtakanna og verið öflugur við fjáröflun. Arnþór hefur verið í stjórn SÁÁ í 17 og er reyndur SÁÁ maður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×