Innlent

„Til hvers er íbúalýðræði ef það er ekki hlustað á það?“

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
samsett mynd
Baráttutónleikar verða haldnir á Austurvelli á morgun þar sem niðurrifi Nasa og byggingu risahótels verður mótmælt.

Tónleikarnir, sem hefjast klukkan 14, eru á vegum BIN-hópsins svokallaða, og meðal þeirra sem koma munu fram eru Ágústa Eva, Daníel Ágúst, Raggi Bjarna, Högni Egilsson og Páll Óskar.

Fundarstjóri verður Saga Garðarsdóttir leikkona og uppistandari, og ávörp verða á dagskrá frá þeim Áshildi Haraldsdóttur frá Torfusamtökunum, Bigga Veiru úr GusGus og Ragnari Kjartanssyni myndlistar- og tónlistarmanni.

Páll Óskar segir engan vilja fyrir því af hálfu borgaryfirvalda að breyta byggingaráformunum.

„Borgaryfirvöld hafa gefið skýra yfirlýsingu um að þau elski bara þessa hótelhugmynd. Þeim finnst þetta brilljant. Allar aðrar hugmyndir hafa ekki einu sinni fengið hljómgrunn hjá þeim.“

Páll segir borgaryfirvöld hafa gert allt sem í þeirra valdi stendur til þess að greiða götu húseigandans.

„Ég er bara alveg gáttaður á því. Hvers vegna eru borgaryfirvöld ekki meira í liði með almenningi sem hefur hatrammlega mótmælt þessum áformum? 17 þúsund manns hafa skrifað undir mótmæli á Ekki.is, þar af hafa 200 tónlistarmenn skrifað undir og athugasemdum hefur rignt inn. Til hvers er íbúalýðræði ef það er ekki hlustað á það?“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×