Íslenski boltinn

Framarar miðuðu á afturenda Ívars

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Óvenjuleg uppákoma átti sér stað á æfingu meistaraflokks karla í knattspyrnu hjá Fram í Safamýri í dag.

Ívar Björnsson, sem leggja þurfti skóna á hilluna á dögunum vegna langvarandi meiðsla, mætti til þess að heilsa upp á sína gömlu félaga. Ívar gengur í það heilaga þann 13. júlí og fengu Framarar að kveðja félaga sinn með sérstökum hætti.

Ívari var stillt upp á marklínu og fengu allir leikmenn Fram að miða á afturenda framherjans af nokkru færi. Reikna hefði mátt með að Ívari yrði meint af skotum félaga sinna en honum til happs gekk Frömurum erfiðlega að hitta.

Fór svo að Ögmundur Kristinsson, markvörður liðsins, þurfti að færa sig alla leið að Ívari til þess að eitt skot færi í framherjann. Má fullyrða að Framarar gætu vel notað Ívar upp við mark andstæðinganna í sumar miðað við hve skotvissa þeirra bláklæddu var döpur.

Uppátækið var hluti af steggjun Ívars og að sjálfsögðu allt til gamans gert.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×