Íslenski boltinn

Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: Fram - Þór 4-1 | Myndir

Stefán Hirst Friðriksson á Laugardalsvelli skrifar
Hólmbert Aron Friðjónsson skoraði þrennu í dag.
Hólmbert Aron Friðjónsson skoraði þrennu í dag. Mynd/Daníel
Hólmbert Aron Friðjónsson var hetja Framara í dag. Kantmaðurinn skoraði þrennu í 4-1 sigri liðsins á Þór í 7. umferð Pepsi-deildar karla.

Heimamenn í Fram byrjuðu leikinn af krafti og tókst þeim að gera tvö mörk í fyrri hálfleiknum, sem í raun var eign þeirra.

Fyrsta mark leiksins gerði Hólmbert Aron Friðjónsson en hann þrumaði boltanum í þverslánna og inn frá vítateigslínunni eftir góða stungusendingu. Þórsarar voru mjög ósáttir með að markið hafi fengið að standa en Hólmbert virtist hafa lagt boltann fyrir sig með hendinni.

Steven Lennon bætti svo við öðru marki Fram á 30. mínútu og staðan því 2-0 þegar flautað var til hálfleiks.

Mark Tubæk minnkaði muninn strax á 48. mínútu með fínu mark en það var Hólmbert Aron sem svaraði strax með marki á þeirri fimmtugustu og leikurinn nánast búinn.

Títtnefndur Hólmbert Aron var þó ekki búinn að syngja sitt síðasta en hann fullkomnaði þrennuna á 78. mínútu með góðu marki. Frábær frammistaða hjá Hólmberti og fyrsta þrenna sumarsins staðreynd.

Framarar spiluðu á köflum fantafínan sóknarbolta í leiknum og er það greinilegt að Ríkharður Daðason er að gera góða hluti með liðið.

Varnarleikur Þórsara var skelfilegur eins og hann hefur verið í allt sumar. Liðið hefur nú fengið á sig tuttugu mörk í fyrstu umferðunum, langflest allra liða. Mikið áhyggjuefni fyrir framhaldið hjá Þórsurum.

Ríkharður: Hefur farið vel af stað
„Ég er virkilega ánægður með okkur í dag og fannst mér sigurinn verðskuldaður. Við erum grimmir og duglegir og gerum tvö góð mörk í fyrri hálfleiknum sem ég var sáttur með. Við svöruðum markinu þeirra í upphafi síðari hálfleiksins gríðarlega vel og er ég ánægður með það."

Aðspurður um góða byrjun liðsins undir hans stjórn sagði Ríkharður.

„Þetta hefur farið vel af stað. Við höfum verið að vinna í ýmsum hlutum hjá leikmönnunum og það er að skila sér. Það er alltaf gaman að sjá þegar slík vinna skilar árangri. Ég er því mjög sáttur með hvernig þetta er að þróast hjá okkur," sagði Ríkharður Daðason, þjálfari Fram í leikslok.

Páll Viðar: Sáu það allir að markið átti ekki að standa
„Þetta eru kunnuglegar tölur, 4-1 tap á útivelli. Þetta gekk ekki hjá okkur í dag það er augljóst. Við höldum áfram að leka inn mörkum og er þessvegna erfitt fyrir okkur að vinna leiki. Ég er að reyna að einblína á það jákvæða en það var mjög pirrandi að fá á okkur þetta fyrsta mark sem allir sáu, nema ákveðnir aðilar, að hafi verið ólöglegt," sagði Páll Viðar.

„Við erum búnir að bæta okkur í ýmsum atriðum. Ég hef séð mikla bætingu bæði í spili og í sóknarboltanum okkar en okkur hefur ekki tekist að bæta okkur neitt í varnarleiknum. Það er að sjálfsögðu mikið áhyggjuefni hvað við erum að fá á okkur mörg mörk og hefur það verið það síðan í fyrsta leik. Ég hef reynt að hrókera í liðinu, hef kannski gert of mikið af því en varnarleikurinn er bara ekki að virka," sagði Páll Viðar Gíslason, þjálfari Þórs í leikslok.

Hólmbert Aron: Ánægður með fyrstu þrennu sumarsins
„Ég er mjög sáttur með liðið og frammistöðu okkar í dag. Við náðum þremur stigum og er bara virkilega ánægður. Ég er mjög ánægður að hafa skorað fyrstu þrennu sumarsins og vonandi heldur þetta bara áfram. Það eru ýmsar áherslur sem eru búnar að breytast með tilkomu Rikka og lítur þetta bara vel út," sagði Hólmbert.

Fyrsta mark Hólmberts í leiknum var umdeilanlegt og aðspurður um hvort að það hefði verið ólöglegt sagði Hólmbert:

„Ég tók hann kannski með höndinni, kannski ekki. Ég er ekki alveg viss, þetta var vafamál," sagði Hólmbert Aron Friðjónsson, hetja Fram í leiknum. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×