Íslenski boltinn

Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: KR - ÍA 4-2

Eyþór Atli Einarsson á KR-velli skrifar
Gary Martin skoraði hjá Skagamönnum í kvöld.
Gary Martin skoraði hjá Skagamönnum í kvöld. Mynd/Daníel
KR-ingar unnu 4-2 sigur á ÍA í stórskemmtilegum leik í 7. umferð Pepsi-deildar karla í kvöld. Gestirnir af Skaganum leiddu í hálfleik 1-0.

 Gestirnir byrjuðu leikinn af miklum krafti og gáfu toppliðinu ekki tommu eftir. Það var svo á 27. mínútu sem þeir höfðu erindi sem erfiði og Andri Adolphsson skoraði eftir góða fyrirgjöf frá Theodore Furness.

Heimamenn í KR voru frekar bitlausir í fyrri hálfleik og sást það einna helst á sterkri miðju þeirra sem var ekki í sínu besta standi í dag. Bæði Jónas Guðni Sævarsson og Bjarni Guðjónsson voru á annarri löppinni og svo virtist það vera skarð fyrir skyldi að Baldur Sigurðsson var ekki með í þessum leik.

Á 41. mínútu átti Andri Adolphsson sendingu inn í teiginn og boltinn sveif yfir mannskarann og hafnaði í stönginni og litlu mátti muna að gestirnir kæmust tveimur mörkum yfir. Staðan í hálfleik 0-1 Skagamönnum í vil.

Í síðari hálfleik mætti gjörbreytt lið KR inn á völlinn. Þeir tóku snemma öll völd á vellinum.

Segja má að dauðafæri Garðars Gunnlaugssonar hafi verið vendipunkturinn í leiknum en hann var einn á auðum sjó fyrir framan mark KR-inga en Gunnar Þór Gunnarsson, varnarmaður KR, komst á ótrúlegan hátt fyrir skot hans.

Eftir þetta var leikurinn eign heimamanna og fóru fyrir fylkingunni kantmennirnir tveir óskar Örn Hauksson og Atli Sigurjónsson ásamt varamanninum Brynjari Birni Gunnarssyni sem mætti eins og prímusmótor á miðjuna.

KR jafnaði leikinn á 60. mínútu. Markið kom eftir horn frá Atla Sigurjónssyni og endaði boltinn hjá Gunnari sem skoraði með góðu skoti.

Næstur á blað var Kjartan Henry Finnbogason sem var nýkominn inn á völlinn. Hann skoraði með sinni fyrstu snertingu eftir mislukkað skot Óskars Arnar. Kjartan gerði vel og var mættur á fjærstöngina og renndi boltanum auðveldlega í netið.

Gary Martin bætti svo við þriðja markinu. Það kom einnig einnig eftir undirbúning Óskars Arnar. Óskar gerði vel og var óeigingjarn, rúllaði boltanum fyrir markið þar sem Gary kom á harðahlaupum og renndi knettinum í netið.

Drengirnir úr Vesturbænum voru ekki hættir og bætti títtnefndur Óskar Örn Hauksson við marki. Atli Sigurjónsson renndi boltanum til hliðar á Óskar Örn sem var einn á auðum sjó fyrir framan teig gestanna og honum brást ekki bogalistin. Staðan orðin 4-1 KR-ingum í vil.

Á annarri mínútu uppbótartíma skoruðu Skagamenn eitt mark en það var því miður alltof seint. Jón Vilhelm Ákason skoraði þá fallegasta mark leiksins þegar hann þrumaði boltanum í þaknetið af stuttu færi. Lokatölur 4-2 fyrir KR.

Leikur KR-inga bar keim af litasamsetningu búnings liðsins. Fyrri hálfleikurinn var svartur og sá síðari hvítur. Þeir virkuðu ekki klárir í fyrri hálfleik en tóku síðan öll völd í þeim síðari. Skagamenn börðust kröftuglega en misstu hausinn í síðari hálfleik og misstu heimamennina frá sér. Sanngjarn sigur KR-inga staðreynd í Frostaskjólinu.

Kjartan Henry: Leyfi Rúnari og hnénu að ákveða það
Mynd/Daníel
„Maður er ekki alveg búinn að átta sig á þessu. En þetta er alveg eins og ég sá þetta fyrir mér í gær að ef ég kæmi inn á þá myndi ég skora,“ sagði Kjartan Henry Finnbogason, leikmaður KR, sem skoraði með sinni fyrstu snertingu gegn ÍA í kvöld.

Kjartan, sem er búinn að vera meiddur, bætti við „ég fagna hverri mínútu sem ég spila og ég er bara bjartsýnn. Nú ætla ég bara að drífa mig heim að kæla.“

„Við vorum svolítið óþolinmóðir og leyfðum þeim að draga okkur fram á völlinn. Við sýndum þó mikinn karakter og sköpuðum okkur góð færi og það vantaði kannski mann á fjær og ég ákvað að taka það á mig.“ sagði Kjartan Henry þegar hann var spurður út í framvindu leiksins.

Baldur Sigurðsson var ekki með KR-ingum í dag og aðspurður sagði Kjartan. „Að sjálfsögðu munar mikið um mann eins og Baldur. Hann er búinn að vera einn af okkar bestu mönnum í sumar og því munaði um hann. Við skoruðum fjögur mörk og það er mjög gott.“

Inntur eftir svari við því hvort að hann byrji ekki næsta leik sagði Kjartan „ég verð að leyfa Rúnari og hnénu að ákveða það. Auðvitað vill maður alltaf spila og ég þarf á því að halda til að koma mér í leikform.“

Þórður Þórðarson: Það er bara leiðinlegt að tapa„Strákarnir stóðu sig vel og börðust um alla bolta. En það var ekki nóg. Við vorum óheppnir að komast ekki í 2-0 þegar boltinn small í stönginni. Síðan gerðu varnarmenn KR vel í því að komast fyrir skot Garðars í dauðafæri. Síðan gerist bara eitthvað í hausnum á mönnum.“ sagði Þórður Þórðarson, þjálfari ÍA eftir tap sinna manna fyrir KR í kvöld.

„Við höfum nú séð það áður í sumar að við komumst yfir og missum svo hausinn. Næstu leikir leggjast vel í mig eins og allir leikir. En þrír leikmenn voru meiddir í dag og tveir hafa ekki verið að standa sig og því geri ég þessar breytingar. Þeir menn sem komu inn á stóðu sig vel.“ sagði Þórður en hann gerði fimm breytingar á sínu liði fyrir leikinn.

Johannes Karl Guðjónsson spilaði í miðverðinum í dag í stað þess að spila á miðjunni. Hvort þetta væri eitthvað sem koma skyldi sagði Þórður. „Mér fannst Jói Kalli standa sig vel. Talaði mikið og stjórnaði mönnum vel. Að sama skapi fengum við á okkur fjögur mörk og það er eitthvað sem þarf að skoða.

Fyrrum lærisveinn Þórðar, Gary Martin, skoraði þriðja mark KR í þessum og leik og spurður að því hvort að það væri sárt að sjá Gary skora gegn sínum gömlu félögum sagði Þórður.

„Það skiptir mig ekki rassgat máli hver skorar, það er bara leiðinlegt að tapa.“

Óskar Örn Hauksson: Tók þennan snúð úr hárinu„Ég ákvað að taka þennan snúð úr hárinu og leyfði vindinum að leika um lokkana. Það skilaði sér heldur betur í dag,“ sagði Óskar Örn Hauksson, leikmaður KR, sem skoraði eitt mark og lagði upp tvö önnur fyrir sitt lið í dag.

„Við vorum að spila þetta svolítið í hendurnar á þeim í fyrri hálfleik, sem er það versta sem gat gerst fyrir okkur. Við þjöppuðum okkur vel saman í hálfleik og fórum vel yfir hlutina.“ sagði Óskar Örn en hann vildi þó meina að hárblásaraaðferð Alex Fergusson, fyrrum stjóra Manchester United hafi ekki verið tekin af Rúnari Kristinssyni þjálfara.

„Rúnar var nú nokkuð rólegur og við tókum okkur saman í andlitinu. Pétur (Pétursson aðstoðarþjálfari) var þó eitthvað að reyna að þenja sig og gott ef það hafi ekki skilað sér inn í síðari hálfleikinn.“ sagði Óskar kampakátur og var ekki tilbúinn að viðurkenna að stoðsending hans á Kjartan Henry í öðru markinu hafi verið mislukkað skot.

„Þetta var svona sambland af skoti og sendingu. Ég vissi að Kjartan myndi mæta á fjær og maður þarf að rífa sjálfstraustið upp hjá drengnum. Hann er búinn að vera lengi frá,“ sagði Njarðvíkingur glottandi að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×