Íslenski boltinn

Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: Stjarnan - Keflavík 1-0

Andri Valur Ívarsson á Samsung-velli skrifar
Mynd/Anton
Stjarnan hirti stigin þrjú á Samsung-vellinum kvöld þar sem Keflvík kom í heimsókn. Eina mark leiksins skoraði Ólafur Karl Finsen á 29. mínútu, eftir sendingu frá Veigari Páli Gunnarssyni. Ólafur Karl tók vel á móti boltanum inn í vítateig vinstra megin við vítapunkt og kláraði færið með hnitmiðuðu innanfótarskoti í fjærhornið.

Leikmenn Stjörnunar byrjuðu leikinn af meiri krafti án þess þó að skapa sér nein almennileg færi. Keflvíkingar komust svo inn í leikinn þegar á leið fyrri hálfleik. Eftir að heimamenn komust yfir voru gestirnir meira með boltann og voru mjög nálægt því að jafna leikinn undir lok hálfleiksins þegar Hörður Sveinsson skallaði fram hjá úr dauðafæri.

Síðari hálfleikur var nokkuð fjörugur og skiptust liðin á að missa boltann og sækja hratt í kjölfarið, án þess þó að skapa sér nein afgerandi færi framan af. Keflvíkingar fengu tvö til þrjú ágætis færi sem þeir hefðu getað gert meira úr. Að sama skapi fengu Stjörnumenn tækifæri til að bæta við marki, en herslumuninn vantaði.

Heilt yfir má segja að leikurinn hafi verið nokkuð jafn en Stjörnumenn ívið sterkari ef eitthvað er. Þeir skoruðu mark og héldu sínu marki jafnframt hreinu, sem er það sem þarf til að vinna fótboltaleik. Að sama skapi eru Keflvíkingar súrir að hafa ekki fengið eitt stig hið minnsta, því þeir börðust allan leikinn en vantaði herslumun, eða gæði, til að skora markið sem þurfti.

Leikurinn var hin ágætasta skemmtun. Sóknir á báða bóga þó svo að ekki hafi verið mikið um dauðafæri og reyndi í raun lítið á markmenn beggja liða í leiknum. Hjá Stjörnunni var Ólafur Karl Finsen bestur. Auk hans var Halldór Orri nokkuð sprækur. Hjá Keflavík átti fyrirliðinn Haraldur Freyr Guðmundsson nokkuð góðan leik í vörninni og var líklega þeirra besti maður.

Logi Ólafsson: Gæði sendinga lítil„Við vorum ekki að leika okkar besta leik og erum því ánægðir að halda markinu hreinu,” sagði Logi Ólafsson þjálfari Stjörnunnar eftir leikinn.

„Sendingavalið og gæði sendinganna voru slök. Í síðari hálfleik var þetta bara spurning um að halda markinu hreinu því við virtumst ekki geta sótt eins og menn í leiknum,” sagði hann jafnframt.

Zoran Ljubicic: Sendingar á fremsta þriðjungi klikkuðuZoran Daníel Ljubicic þjálfari Keflavíkur var svekktur með að hafa ekki fengið stig í leiknum í kvöld.

„Við áttum ágætis leik í kvöld en því miður klikkuðu sendingarnar hjá okkur á fremsta þriðjungnum. Við gáfum þeim mark sem hefur einkennt okkur í síðustu leikjum. Við gerðum breytingar í síðari hálfleik og settum ferska menn inn og það lifnaði yfir liðinu.” sagði Zoran.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×