Innlent

Bíladagar ganga vonum framar

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Bílaklúbbur Akureyrar stendur árlega fyrir Bíladögum þar í bæ.
Bílaklúbbur Akureyrar stendur árlega fyrir Bíladögum þar í bæ. MYND/BÍLAKLÚBBUR AKUREYRAR
Að sögn lögreglunnar á Akureyri hafa Bíladagar, sem standa nú yfir, gengið vonum framar hingað til. Fólk á tjaldsvæði hagaði sér vel og lögreglan þurfti lítil afskipti að hafa af hátíðargestum.

„Þetta gengur alveg ótrúlega vel og miklu minna að gera en venjan er þessa helgi. Þetta er bara til fyrirmyndar, “ sagði lögreglumaður í samtali við fréttastofu 365.

Lögreglan fyrir norðan er óvenju vel mönnuð þessa helgina og gekk mjög vel að halda utan um ástandið í miðbænum. Fyrir utan minniháttar slagsmál þurfti hún lítið að skipta sér af hátíðargestum.

Skiptar skoðanir eru um bílahátíðina í bænum þar sem hana einkenna mikill hávaði og spól frá spólandi tryllitækjum. Í ár fer dagskráin í fyrsta skipti á nýju svæði Bifreiðaklúbbs Akureyrar sem er ofan við bæinn. Lögreglan segir þetta vera mikla bót á því sem áður var.

Þrátt fyrir að hátíðin hafi farið vel fram hingað til hefur lögreglan nú stoppað tugi ökumanna fyrir of hraðan akstur, en mikill umferð var norður í gær og þónokkur í dag. Þá komu upp tvö stór fíkniefnamál við húsleit í gær og í fyrradag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×