Ummælin sem varaformaður knattspyrnudeildar Víkings lét falla um Leikni Ágústsson knattspyrnudómara hafa verið kærð til Aga- og úrskurðarnefndar KSÍ.
Þórir Hákonarson, framkvæmdarstjóri KSÍ, staðfesti þetta við Vísi í dag en hann hefur heimild til að skjóta slíkum málum til nefndarinnar.
„Leiknir Ágústsson er búinn að eyðileggja leikinn. Þessi maður er mesta sorp í íslenskum bolta. KSÍ til skammar ár eftir ár,“ skrifaði Heimir á Twitter-síðu sína eftir 2-2 jafnteflisleik gegn Leikni í 1. deild karla.
Hann baðst svo afsökunar á ummælum sínum en hélt í þá skoðun sína að leikurinn hafi verið illa dæmdur.
Víkingar hafa nú frest til að skila skýrslu um málið til Aga- og úrskurðarnefndar áður en úrskurðað verður í málinu.
Ummæli Heimis kærð til aganefndar
Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
