Enski boltinn

Fullyrt að Liverpool sé reiðubúið að selja Suarez

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images

Forráðamenn enska félagsins Liverpool ætla sér ekki að sleppa Luis Suarez fyrir minna en 50 milljónir punda.

Þetta er fullyrt í enska dagblaðinu The Guardian en Suarez hefur undanfarna daga sagt í viðtölum í heimalandi sínu, Úrúgvæ, að hann vilji fara frá Liverpool.

Suarez segist vera óánægður með lífið í Englandi og að það yrði erfitt að hafna tilboði frá spænska liðinu Real Madrid, sem hann hefur verið sterklega orðaður við.

Forráðamenn Liverpool ætla þó ekki að láta þvinga sig til neins og sögðu í gær að leikmaðurinn væri ekki til sölu. Í yfirlýsingu félagsins var sagt að hvorki leikmaðurinn né umboðsmaður hans hafi látið þessar skoðanir í ljós við félagið sjálft.

The Guardian fullyrðir að Suarez verði að skila inn skriflegri beiðni um að verða seldur frá félaginu og að ólíklegt sé að Liverpool muni sætta sig við minna en 50 milljónir punda fyrir kappann.

Fernando Torres er dýrasti leikmaðurinn í sögu Liverpool en hann var seldur fyrir 50 milljónir til Chelsea á sínum tíma.

Liverpool mun vera skylt að láta Suarez vita ef því bærist tilboð upp á minnst 40 milljónir punda. Liverpool er þó ekki skylt að selja hann fyrir þá upphæð, en Suarez mætti ræða við viðkomandi félag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×