Innlent

„Mikið eigum við eftir að sakna hans“

Fjölmargir syrgja Hermann Gunnarsson sem varð bráðkvaddur á Tælandi í dag. Einn þeirra er Heimir Karlsson, fyrrverandi samstarfsmaður Hermanns á útvarpsstöðinni Bylgjunni.

„Við vorum búnir að þekkjast í fjöldamörg ár ég og Hemmi,“ segir Heimir og bætir því við að þeir hafi verið perluvinir. „Hann var einstaklega ljúfur maður, hjartahlýr húmoristi.“

Heimir veit ekki til þess að Hemmi hafi kennt sér meins undanfarið, en fyrir um áratug síðan fékk hann hjartaáfall og talaði frjálslega um það að hafa verið dáinn í átta mínútur.

„Hann hafði auðvitað gengið í gegn um erfiðleika með sína heilsu og við vissum það öll að hann dó á sínum tíma. Hann gerði ekkert lítið úr því sjálfur og grín að því mikið.“

Heimir segir að Hemma verði sárt saknað. „Það er ekki skrýtið þó öll þjóðin elski hann, og mikið eigum við eftir að sakna hans.“

Í meðfylgjandi myndskeiði má sjá Heimi færa Hemma óvænta gjöf í beinni útsendingu í Bítinu á Bylgjunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×