Innlent

Hemmi fékk tíu ár aukalega

Jakob Bjarnar Grétarsson skrifar

Fyrir um tíu árum fékk Hemmi Gunn hjartaáfall. Hann var í raun farinn yfir móðuna miklu en vaknaði aftur til lífsins. Í viðtali við Fréttablaðið kvaðst Hemmi þakklátur fyrir að fá annað tækifæri. „Ég hef aldrei látið veraldlega hluti ráða minni för. Maður þarf að lifa, en núna hins vegar skipta hin veraldlegu gæði mig nákvæmlega engu.“

Sem skotinn

Í viðtalinu segir Hemmi þetta hafa verið langstærsta áfall lífs hans og hafi hann þó lent í þeim nokkrum. „Nú reynir maður að skilja tilganginn með þessu lífi. Okkur er skammtaður ákveðinn tími sem fara þarf vel með. Þetta var vekjaraklukka,“ sagði Hemmi en viðtalið í Fréttablaðinu birtist 9. nóvember árið 2003.

Þann 30. september það ár lá Hemmi í sófa á heimili systur sinnar og átti sér einskis ills von. Hann fann fyrir slappleika og taldi það flensu sem mætti hrista af sér næsta dag. Ekkert merkilegt... þannig. Skyndilega var líkt og hann væri skotinn. Hemmi fékk hjartaáfall og var ekki hugað líf.

Farinn yfir móðuna miklu

Hemmi hafði búið einn í háa herrans tíð. Hann kom til Íslands í lok júni eftir dvöl ytra og var hjá systur sinni og mági þegar áfallið átti sér stað. „Ef ég hefði verið einn líkt og oftast sætum við ekki hér að spjalli. Ég lá sem sagt í sófa, fann fyrir einhverju sleni en skömmu síðar var ég sem skotinn. Og þetta mikla hjartaáfall skall á. Ég hætti að anda. Það var enginn aðdragandi og mér sortnaði ekki fyrir augum eða neitt slíkt.“

Mágur Hemma hafði átt við hjartagalla að stríða og vissi hvernig átti að bregðast við. Því þakkar Hemmi meðal annars líf sitt. Hann segir mág sinn, systur og systurson hafa brugðist hárrétt við. „Mágur minn hafði lent í þessu og vissi hvað átti að gera. Eftir því sem mér skilst þurfti auðvitað að hringja á sjúkrabíl og svo tóku þau til við að hnoða og hamast á mér eins og hægt var. Ég var ekki með lífsmarki. Bara farinn yfir móðuna miklu. Þau héldu flæði í líkamanum. Svo komu sjúkrabílar og læknar til leiks með með sín rafstuð og ég fór að hökta í gang eftir að startkaplarnir höfðu unnið sitt gagn.“

Allar blaðsíður á sínum stað

Í tvo sólarhringa var Hemmi á gjörgæslu og hann man lítið eftir þeim tíma – skiljanlega. „Hvort mér var haldið sofandi veit ég ekki. En þegar líður of langur tími í hjartastoppi og meðvitundarleysi eru ýmsar hættur því samfara. Ef heilinn fær ekki súrefni getur hann dottið úr sambandi fyrir lífstíð eða hluti hans. En það kom ekki fyrir mig. Ég hugsa að ég sé í við skárri en ég var ef eitthvað er.“

Góður skammtur af Hemmahlátrinum fylgir í kjölfarið sem þjóðin þekkir svo vel og ljóst er að ekki gaf kímnigáfan sig.

„Nei, svona grínlaust... Ásgeir Jónsson hjartalæknir og hans góða fólk vann kraftaverk. En það fyrsta sem kom upp í hugann var hvort kollurinn væri í lagi. Ég hef alla tíð verið mjög glöggur á símanúmer og ég hafði farsímann við höndina og tók sjálfan mig í próf. Þá kom í ljós að allar blaðsíðurnar voru á sínum stað. Það var mikill léttir.“

Engar fréttir að handan

Hemmi segist að auki hafa þekkt þá fjölmörgu sem komu að hitta hann og gat af veikum mætti haldið uppi samræðum. „En ég var samt í rauninni farinn, þó ég hafi nú engar fréttir að handan á þessu stigi. Ég mun kannski greina frá því síðar. Mér skilst að nú séu sjónvarpsþættir á skjánum þar sem fram kemur fólk að handan. Kannski get ég lagt mitt af mörkum og komið með einhverja nýja vinkla á það allt saman,“ segir Hemmi og hlær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×