Innlent

Skyrið rennur út

Ingveldur Geirsdóttir skrifar

Áætlað er að 24 milljónir 170 gramma skyrdósa seljist á Norðurlöndunum á þessu ári. Ísland er þá ekki með talið en reiknað er með að Íslendingar muni innbyrða skyr úr 13 milljónum slíkra dósa.

Einar Sigurðsson forstjóri Mjólkursamsölunnar segir skyrið falla mjög vel í kramið hjá Norðurlandaþjóðunum, ekki séu nema fjögur ár síðan sala á skyri í nágrannalöndunum nam tæpu hálfu tonni en stefni nú í fimm tonn, tonni meira en í fyrra. Íslendingar borði svo rúm tvö tonn á ári.

„Þetta helgast af því að afurðin er mjög góð og síðan er eftirspurn eftir próteinríkum hollum vörum á mörkuðum bæði hér heima og erlendis," segir Einar.

Í Danmörku og Noregi er skyr framleitt samkvæmt leyfi frá Mjólkursamsölunni. Frá Danmörku er skyr selt til Svíþjóðar. Finnar fá svo skyr frá Íslandi en tollheimild Evrópusambandsins heimilar aðeins útflutning á 390 tonnum en áætlanir gera ráð fyrir 650 tonna sölu í Finnlandi á þessu ári. Til að anna eftirspurn verður skyr fyrir Finnlandsmarkað framleitt að hluta til í Danmörku.

„Öll lönd í heiminum verja sinn mjólkuriðnað með tollum og sama má segja um Evrópusambandið. Við höfum lítinn kvóta þar inn. Við fullnýtum hann í útflutninginn til Finnlands og síðan hefur Mjólkursamsalan gert sérstaka samninga við framleiðendur í Danmörku og Noregi sem framleiða undir eftirliti og undir merkjum og með ágóðahlutdeild Mjólkursamsölunnar í framleiðslunni," segir Einar.

Þá er skyr flutt út til Bandaríkjanna í litlu magni og segir Einar að verið sé að skoða möguleika á að auka útflutning þangað því tollar séu miklu lægri þar en í Evrópu.

„Við getum flutt út, svona miðað við þá framleiðslu sem er í gangi á Íslandi í dag, um það bil 3000 tonn af skyri til viðbótar."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×