Innlent

Þau fjölga börnunum í gömlu Gufudalssveit

Kristján Már Unnarsson skrifar

Á svæði á sunnanverðum Vestfjörðum, þar sem jarðirnar allt um kring hafa verið að leggjast í eyði, hefur ungt par með fimm börn keypt bújörð og er byggja upp stórt sauðfjárbú.

Jörðin Gufudalur var forðum höfuðból heillar sveitar sem kennd var við bæinn en núna eru aðeins eftir fjórir bæir í byggð í gamla hreppnum, sem nú er hluti Reykhólahrepps. En þökk sé þeim Ernu Ósk Guðnadóttur og Helga Jóni Ólafssyni, og barnaláni þeirra, þá hefur mannfólkinu snarfjölgað í Gufudalssveit.

Þau voru að sleppa fénu lausu í sumarhaga á eyðibýlinu Fjarðarhorni í botni Kollafjarðar, og með þrjú yngstu börnin, þegar Stöð 2 náði tali af þeim. Fyrir rúmu ári létu þau drauminn rætast, fluttu úr þéttbýlinu og gerðust bændur í sveit.

„Þetta er bara heillandi. Við heilluðumst af þessu svæði," segir Helgi Jón.

„Það var tekið rosalega vel á móti okkur, við fengum mjög góðar móttökur og okkur líður rosa vel hérna," segir Erna Ósk. 

Þau bjuggu áður á Hvolsvelli, hann vann sem vörubílstjóri en hún á hjúkrunarheimili. Þau eru komin með 400 kindur, stefna að því að fjölga um helming, og segja þetta kjörsvæði fyrir sauðfjárrækt. Sjá nánar í viðtalinu á Stöð 2.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×