Innlent

Þjóðaratkvæðagreiðsla um ESB-viðræður ekki á dagskrá

Heimir Már Pétursson skrifar
Þjóðaratkvæðagreiðsla um aðildarviðræðurnar, sem settar hafa verið á salt, eru ekki á dagskrá ríkisstjórnar.
Þjóðaratkvæðagreiðsla um aðildarviðræðurnar, sem settar hafa verið á salt, eru ekki á dagskrá ríkisstjórnar.

Sigurður Ingi Jóhannsson sjávarútvegs-, landbúnaðar og umhverfisráðherra segir þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhald aðildarviðræðna Íslands að Evrópusambandinu ekki vera á dagskrá ríkisstjórnarinnar að óbreyttu.

Betur borgið utan ESB

Í Bændablaðinu í dag segir ráðherrann að til þess að Íslendingar æski inngöngu í sambandið þurfi einhverjar stórkostlegar breytingar að koma til í Evrópu og heiminum. Sigurður Ingi segir að töluverð óvissa sé um framtíð Evrópusambandsins og evrunnar og þar af leiðandi óvissa um tímasetningu þjóðaratkvæðagreiðslu um viðræðurnar.

"Hinsvegar hefur það verið nokkuð skýrt í afstöðu stjórnvalda, og meirihluta landsmanna jafnframt, að menn telji að Íslandi sé betur borgið utan Evrópusambandsins en innan þannig að það er nokkur óvissa um hvenær slík þjóðaratkvæðagreiðsla ætti að fara fram," sagði Sigurður Ingi í samtali við Bylgjufréttir í morgun.

Lítur til Sviss og Möltu

Ráðherra telur að það hafi ekkert uppá sig að leggja út í slíka þjóðaratkvæðagreiðslu núna. "En þetta verður að vera mat á hverjum tíma."

Sigurður Ingi segir Íslendinga á sömu leið og Maltverjar og Svisslendingar hafi valið á sínum tíma. Maltverjar hafi lagt aðildarviðræður við Evrópusambandið niður í fjögur ár og tekið þær upp aftur vegna breyttra aðstæðna í þjóðfélaginu og Svisslendingar settu samninga sem farnir voru af stað ofan í kistu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×