Innlent

Vigdís Hauks verður formaður fjárlaganefndar

Sigrún Magnúsdóttir fyrrverandi borgarfulltrúi verður kjörin formaður þingflokks Framsóknarflokksins á fundi hans í dag, samkvæmt heimildum fréttastofunnar.

Sömu heimildir herma að Ásmundur Einar Daðason kunni að taka við þingflokksformennskunni þegar líður á kjörtímabilið. Þá verður Vigdís Hauksdóttir kosinn formaður fjárlaganefndar Alþingis.

Venjan er að sá meirihluti sem fer með völd á Alþingi skipi jafnframt alla formenn og varaformenn fastanefnda þingsins.

Brugðið var út frá þessu árið 2011 eftir breytingar á þingskaparlögum og nú verður stjórnarandstöðunni boðin formennska í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og velferðarnefnd auk varaformennska í þremur nefndum.

Samkvæmt heimildum fréttastofunnar verður Sigríður Ingibjörg Ingadóttir þingmaður Samfylkingarinnar formaður velferðarnefndar en flokkurinn fær jafnframt fyrsta varaformann umhverfis- og samgöngunefndar og annan varaformann fjárlaganefndar.

Vinstri græn fá formennsku í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og fyrsta varaformann í annarri nefnd. Björt framtíð fær fyrsta varaformann í einni nefnd og annan varaformann í annarri og Píratar fá annan varformanninn í einum af nefndum Alþingis, en flokkarnir ganga frá skipan í nefndir á þingflokksfundum sem hefjast klukkan tíu.

Alþingi kemur saman í fyrsta skipti eftir kosningar að lokinni guðsþjónustu í dómkirkjunni klukkan hálf tvö.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×