Innlent

Töldu sig á leið til Kanada - enduðu í fangaklefa í Vestmannaeyjum

Boði Logason skrifar
Skemmtiferðaskipið lagði úr höfn í Reykjavík í gærkvöldi. Mynd tengist frétt ekki beint.
Skemmtiferðaskipið lagði úr höfn í Reykjavík í gærkvöldi. Mynd tengist frétt ekki beint.

Tveir hælisleitendur eru nú vistaðir í fangageymslu í Vestmannaeyjum eftir að þeir fundust um borð í skemmtiferðaskipi stuttu eftir að það lagði úr höfn í Reykjavík í gær. Þeir verða fluttir til borgarinnar í dag, þar sem tekin verður skýrsla af þeim.

Skipið lagði af stað úr Reykjavíkurhöfn seint í gærkvöldi og var stefnan sett á Vestmannaeyjar þar sem stoppa átti í nokkra klukkutíma. Mennirnir tveir fundust um borð stuttu eftir að skipið lagði úr höfn en þeir töldu sig á leiðinni til Kanada þegar það var í rauninni á leiðinni til Færeyja.

Þeir eru á milli tvítugs og þrítugs og hafa dvalið hér á landi sem hælisleitendur í þónokkurn tíma. Annar í tæplega tvö ár en hinn í fjóra mánuði, að sögn lögreglunnar í Vestmannaeyjum. Ekki er vitað hvaðan þeir eru, en þeir segjast vera frá Marokkó og Túnis.

Þeir verða fluttir til Reykjavíkur í dag, þar sem tekin verður skýrsla af þeim með hjálp túlks.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×