Innlent

Sýna dýrasta bréf Íslandssögunnar

Kjartan Hreinn Njálsson skrifar

Hið dularfulla Biblíubréf, dýrasta bréf Íslandssögunnar, verður til sýnis á Norrænu frímerkjasýningunni um helgina. Formaður Landssambands íslenskra frímerkjasafnara hvetur fólk til að gramsa í gömul skjölum, enda gæti slíkur dýrgripur leynst á ólíklegustu stöðum. Kjartan Hreinn Njálsson.

Norræna frímerkjasýningin, Nordia 2013, er haldinn á fimm ára fresti og er þetta sjötta sinn sem hún er haldin hér á landi. Hér taka íslenskir fsafnarar höndum saman, sameinast í áhugamáli sínu og hampa frímerkinu, sem vissulega má muna sinn fífil fegurri enda er ágangur nútímatækninnar róttækur.

Stjarna sýningarinnar er vafalaust Biblíubréfið dularfulla. Það er dýrasta frímerkta umslag Íslandssögunar en hefur aðeins einu sinni verið sýnt á Íslandi. Sænski greifinn Douglas Storckenfeldt, sem sýnir safn sitt í heiðursdeild Nordia 2013, er núverandi eigandi bréfsins en það eignaðist hann á uppboði árið 2005 fyrir ótilgreinda fjárhæð.

„Þeir finna þetta bréf einhverri biblíu," segir Sigurður R. Pétursson,formaður Landssambands íslenskra frímerkjasafnara. „Ég hef nú aldrei verið viss um þessa sögu. En þeir segja þetta og maður verður víst að trúa því."

Biblíubréfið var síðast selt opinberlega á 17 milljónir króna árið 1983 á uppboði hjá David Feldman í Sviss, einu þriggja helstu uppboðshúsa heims á sviði frímerkja. Framreiknað til núvirðis nemur sú upphæð hvorki meira né minna en 175 milljónir króna.

Ásamt Biblíubréfinu má finna falda fjársjóði, líkt og teikningamyndasamkeppni grunnskólabarna þar sem sigurvegarinn fær einkafrímerki með sinni mynd, jú og yfirgripsmikla sýningu á tengslum mynt- og frímerkjasöfnunar.

Allt er þetta gert til að virkja áhuga landans á póst- og frímerkjasögu.

„Síðan er annað sem er skemmtilegt. Eins og við vitum þá hafa margir safnað frímerkjum hér á landi og margir eiga slatta í kössum, kannski leynist eitt Biblíubréf þar," segir Sigurður. „Þannig að það er um að gera fyrir fólk að fara að gramsa í gömlum skjölum og auðvitað láta sjá sig um helgina."

Norræna frímerkjasýningin fer fram í Ásgarði í Garðabær um helgina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×