Innlent

Læknar geti séð lyfjasöguna

Þorgils Jónsson skrifar
Heilbrigðisyfirvöld vinna nú að nýjum úrræðum til að sporna við misnotkun lyfseðilsskyldra lyfja.
Heilbrigðisyfirvöld vinna nú að nýjum úrræðum til að sporna við misnotkun lyfseðilsskyldra lyfja. samsett mynd

Heilbrigðisyfirvöld vinna nú að úrræðum til að sporna við misnotkun lyfseðilsskyldra lyfja, meðal annars rítalíns, og stendur til að gera læknum kleift að sjá sögu sjúklinga áður en skrifað er upp á lyf sem mögulegt er að misnota.

Þórarinn Tyrfingsson, yfirlæknir á Vogi, sagði nýlega í samtali við Fréttablaðið að rítalín hefði tekið yfir stóran hluta af neyslu örvandi lyfja hér á landi; frá þriðjungi allt undir helming neyslunnar.

Fram hefur komið að meirihluti þess rítalíns sem er í umferð er fengið út á lyfseðla sem læknar skrifa upp á. Gunnar Alexander Ólafsson, sérfræðingur í velferðarráðuneytinu, segir að yfirvöldum sé ljóst hvernig staðan sé og full ástæða sé til að hafa áhyggjur af henni.

„Við höfum alvarlegar áhyggjur af ástandinu en það hefur verið gripið til ýmissa aðgerða til að draga sérstaklega úr rítalínnotkun hér á landi. Meðal annars er í undirbúningi að læknar muni geta séð hjá sér lyfjaskráningasögu sjúklings, áður en skrifað er upp á lyf fyrir viðkomandi.“

Aðspurður um hvenær þetta nýja fyrirkomulag gæti verið komið í gagnið, segir Gunnar að vonast sé til þess að það verði síðar á þessu ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×