Innlent

Skotárás í Kaliforníu: „Þeir eru að leiða strák út í handjárnum núna“

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
mynd/skjáskot

Að minnsta kosti þrír eru særðir eftir skotárás sem átti sér stað í nágrenni Santa Monica College í Kaliforníu fyrir skömmu. Einn hefur verið handtekinn, en ástand hinna særðu er ekki vitað að svo stöddu.

Rósa Amelía Árnadóttir er nemandi við skólann og þegar fréttastofa Vísis náði tali af henni var hún stödd fyrir utan bókasafn skólans, en búið er að girða bygginguna af.

„Ég var að labba inn í kennslustofu þegar ég sé alla koma hlaupa úr öskrandi um að það væri byssumaður á svæðinu og ég hljóp með þeim út úr skólanum.“

Rósa segir að um fimm mínútum síðar hafi lögregla og sérsveitarmenn komið á staðinn.

„Ég sá þá draga allavega þrjá sem var búið að skjóta. Ég veit ekki hvort þeir séu dánir eða ekki. Það er búið að loka öllu skólasvæðinu og ég veit ekki hvort þeir eru búnir að ná þeim sem skaut.“

Rósa sagðist hafa heyrt að minnsta kosti tíu skothvelli þegar hún hljóp út úr skólanum, og skömmu síðar tvo til viðbótar.

„Svo heyrði ég að þrír hefðu verið skotnir inni í bílum. Þeir eru akkúrat núna að taka hann, ég er að horfa á þetta. Þeir eru að leiða strák út í handjárnum núna en ég veit ekki alveg hvað er í gangi.“

Lögregla handtók einn mann á bókasafninu og segja sjónarvottar að hann hafi skotið á bíla í nágrenni við skólann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×