Innlent

Nýfæddir selkópar og yrðlingar í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum

Jóhannes Stefánsson skrifar

Tveir nýfæddir selskópar eru nú í selatjörninni í Fjölskyldu- og Húsdýragarðinum. Urturnar Esja og Særún eru mæður kópanna, en enn er beðið eftir að Kobba kæpi líka.

Fyrri kópurinn fæddist seinastliðinn fimmtudag en sá síðari nú í morgun. Urturnar passa vel upp á kópana svo ekki er ráðlegt að reyna að klappa þeim fyrst um sinn. Báðir eru kóparnir farnir að elta mæður sínar um tjörnina og virðast nokkuð sprækir að sögn Lilju Björk Vilhelmsdóttur, fræðslufulltrúa garðsins.

„Já þeir eru víst orðnir tveir, það kom annar í morgun. Þeim heilsast mjög vel og urturnar eru svo natnar við þá fyrstu vikurnar, þannig að þeir fara bara fljótlega á sund eftir að þeir koma í heiminn."

Aðspurð að því hvort búið sé að gefa kópunum nöfn segir Lilja:

„Nei það er ekki búið að kyngreina þá ennþá. Það er dálítið erfitt að kyngreina þá. En Sæmundur Skúli kom til okkar á fimmtudagsmorguninn og honum fannst viðeigandi ef fyrsti kópurinn væri brimill að nefna hann Sæmundur. Sæmundur á selnum, það er viðeigandi og skemmtilegt nafn."

Lilja segir kópana munu verða í garðinum í allt sumar en með haustinu fara þeir á aðra staði. En kóparnir eru ekki einu nýju íbúarnir í garðinum.

„Nú eru komnir yrðlingar sem fara væntanlega að vappa út úr greninu sínu þá og þegar. Þeir eru líka miklir hnoðrar. Það er allavega búið að telja níu en þeir þurfa að fá að vera í friði fyrstu vikurnar þannig að húsið þeirra er reyndar lokað á meðan það er. En á næstu vikum þá ættu þeir að fara á vapp út með mömmunni."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×