Innlent

Endurskoðar ákvörðun um stækkun bannsvæði hvalveiða

LVP skrifar

Nýr sjávarútvegsráðherra telur að ákvörðun Steingríms J. Sigfússonar um að stækka bannsvæði hvalveiða á Faxaflóa hafi verið pólitísk ákvörðun sem ekki hafi verið byggð á vísindalegum rökum. Hann endurskoðar nú ákvörðunina og segir koma til greina að draga hana til baka.

Steingrímur J. Sigfússon, þáverandi atvinnuvegaráðherra, stækkaði bannsvæði hvalveiða á Faxaflóa tveimur dögum áður en hann lét af embætti. Áður en bannið tók gildi náði veiðisvæðið frá Garðskaga og norður að Akranesi. Eftir að það tók gildi er hins vegar bannað að veiða hvali innan línu sem nær frá Garðskaga að Skógarnesi á Snæfellsnesi.

Steingrímur taldi sig með ákvörðuninni vera að taka tillit bæði til hrefnuveiðimanna og hvalaskoðunarfyrirtækja sem lengi höfðu þrýst á að griðarsvæði hvala yrði stækkað. Meirihluti nefndar sem að ráðherra skipaði vildi að gengið yrði lengra og veiðar bannaðar á öllum Faxaflóa. Hrefnuveiðimenn brugðust illa við stækkun bannsvæðisins og telja að áttatíu prósent veiðisvæða þeirra lendi innan þess.

Sigurður Ingi Jóhannsson, nýr sjávarútvegsráðherra, gangrýnir ákvörðun Steingríms og hefur undanfarið verið að endurskoða málið.

„Mér fannst þetta vera mjög sérkennileg ákvörðun og tekin á síðustu dögum forvera míns í embætti,“ segir Sigurður Ingi. Hann segir til greina koma að draga ákvörðunina til baka.

„Við höfum verið að skoða þetta mál og við munum klára það væntanlega eftir helgi þá skoðun. Það er svona margt sem bendir til þess að sú ákvörðun hafi ekki verið byggð á neinum vísindalegum rökum og hefur talsvert mikil áhrif á hrefnuveiðivertíðina akkúrat í sumar. En mjög umdeilt hvort hún hafi nokkur áhrif á hvalaskoðunina út af fyrir sig,“ segir Sigurður Ingi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×