Innlent

Loforð Framsóknarflokksins skapar óvissu á fasteignamarkaði

Höskuldur Kári Schram skrifar

Dæmi eru um að íbúðareigendur haldi að sér höndum á fasteignamarkaði vegna loforða ríkisstjórnarinnar í lánamálum.  Fólk óttast að fá engar afskriftir af verðtryggðum lánum ef það selur íbúð sína áður en fyrirhugaðar aðgerðir í skuldamálum taka gildi.

Fasteignamarkaðurinn hefur á síðustu árum verið á hægri uppleið eftir bankahrun. 485 samningum vegna fasteignakaupa var þinglýst á höfuðborgarsvæðinu í maímánuði sem er þreföldun miðað við sama mánuð árið 2009.

Loforð ríkisstjórnarinnar um afskriftir íbúðalána hefur hins vegar valdið því að íbúðaeigendur halda að sér höndum á fasteignamarkaði.

Kristján Baldursson er löggiltur fasteignasali og eigandi fasteignasölunnar Trausta.

„Ég hef fengið mikið af símtölum og fyrirspurnum frá fólki sem að þarf af einhverri ástæðu að skipta um húsnæði. Stækka við sig eða minnka eða eitthvað slíkt en leggur ekki í það vegna þess að það hefur ekki leikreglurnar á hreinu varðandi þessi kosningaloforð sem komu fram í síðustu kosningum.

Sp. fréttamanns: Fólk vill bíða og sjá hvað gerist?

„Já þá er það að velta fyrir sér hvort það muni tapa einhverjum réttindum þegar og ef kemur til þessarar leiðréttingar,“ svarar Kristján.

Kristján segir mikilvægt að ríkisstjórnin skýri málið sem fyrst.

„Það er ábyrgðarhlutur að koma fram með svona loforð fyrir kosningar og ef þetta gengur eftir og kemur til efnda þá er þetta hið besta mál. Stjórnvöldum ber skylda til að í fyrsta lagi setja tímaramma á framkvæmdina og eins að kynna landanum leikreglurnar,“ segir Kristján og bætir við að fólk þurfi þó ekki að óttast að tapa réttindum.

„Það er lagaákvæði þarna í lögum um vexti og verðtryggingu þar sem þetta er afar skýrt og það er tekið mjög vel á þessu í breytingarlögum frá 2010. Fólk tapar engum rétti og leiðréttingin fer alltaf til þeirra sem eiga hana þeirra sem áttu lánið á sínum tíma,“ segir Kristján að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×