Innlent

Golfið að gleypa veiðina

Jakob Bjarnar Grétarsson skrifar
Bjarni Júlíusson. Veiðimenn velja golfið en margvíslegar ástæður eru að baki meiri samdrætti í sölu veiðileyfa enn hefur sést.
Bjarni Júlíusson. Veiðimenn velja golfið en margvíslegar ástæður eru að baki meiri samdrætti í sölu veiðileyfa enn hefur sést.

Samdráttur í sölu veiðileyfa, um heil þrjátíu prósent, er án fordæma. Margvíslegar ástæður búa þar að baki; ein er sú að golfið er að gleypa veiðina. Bjarni Júlíusson er formaður Stangveiðfélags Reykjavíkur og hann telur sitthvað til í þeirri kenningu.

Aflabrestur í fyrra án fordæma

„Við skulum nú samt passa okkur, það eru vafalaust fleiri þættir sem þarna eiga í hlut," segir Bjarni. Hann segir ljóst að samdrátturinn sé í það minnsta þrjátíu prósent, eins og skýrsla Landsambands stangaveiðimanna, sem birtist í gær segir til um. Bjarni telur að samdráttinn megi rekja til fjögurra atriða: Laxveiðin sé orðin alltof dýr. „Sumir segja að hækkunin hafi tvöfaldast að raungildi á síðustu tuttugu til þrjátíu árum. Í öðru lagi varð aflabrestur í fyrra og veiðin var slök og hafði ekki verið jafn slök í um heila öld." Í þriðja lagi setur bágt efnahagsástand strik í reikninginn, ekki aðeins hér á landi heldur í Evrópu, til að mynda á Spáni en menn hafa komið þaðan til veiða í gegnum tíðina. Dregið hefur úr því. Fólk á ekki pening.

Hitti veiðifélagana í flughöfninni

„Svo er það þetta atriði sem þú nefnir sem er að veiðin á í samkeppni við aðra glæsilega afþreyingu sem byggir á útivist, fjölskyldustemmingu og vinasporti. Og þar er golfið vissulega að keppa við veiðina."

Menn sem fara í golferðir til útlanda kannast gjarnan við margan manninn í hópi ferðafélaga: „Félagi minn var að koma úr golferð frá Spáni, þar sem hann dvaldi í átta daga og borgaði um 160 þúsund krónur fyrir pakkann í heild sinni. Mér finnst það slæmt því hann ætlar ekki að verja þessum peningum í laxveiði í sumar. En, það sem var ennþá verra er að þegar hann mætti út á flughöfnina í Keflavík og hittir hópinn sem var að fara þarna saman út, þá þekkti hann nánast hvern einasta mann. Þetta voru allt vinir og gamlir veiðifélagar sem nú voru komnir í nýjan gír," segir Bjarni.

Norðurá opnar 5. júní

Bjarni ber sig þó ekki illa. „Ekki hægt annað en vera kátur á þessum degi. Frábært veiðveður er úti, það rignir og þá kemur vatn í árnar. Laxinn er byrjaður að ganga. Menn eru búnir að sjá laxa í nokkrum ám. Og laxveiðin hefst með bravör næstkomandi miðvikudag, 5. júní þegar Norðurá verður opnuð."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×