Innlent

Ökuferð til Akureyrar fyrir minna en 3.000 krónur

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Að sögn framkvæmdarstjóra FÍB er hægt að ná verulegum sparnaði við akstur með meðvituðu aksturslagi.
Að sögn framkvæmdarstjóra FÍB er hægt að ná verulegum sparnaði við akstur með meðvituðu aksturslagi. MYND/ÚR SAFNI

Árleg sparaksturskeppni FÍB og Atlantsolíu var sett kl. 9 í morgun. 24 fólksbílar aka nú 382 km á milli Reykjavíkur og Akureyrar. Keppendur þurfa að vera búnir að ljúka keppni á 5 klukkutímum og 10 mínútum. Á heimasíðu FÍB er hægt að fylgjast með bílunum í rauntíma.

 

Allar hreyfingar bílanna eru skráðar niður með þar til gerðum búnaði. Keppendum er skylt að aka samkvæmt umferðarlögum, en öll frávik, eins og óeðlilega hægur akstur eða hraðakstursbrot, kosta keppendur refsistig.

 

Ferðalög þurfa ekki að kosta háar upphæðir

Sparaksturskeppnin er að þessu sinni haldin til að vekja athygli á ferðalögum Íslendinga um eigið land og sýna fram á það að með yfirveguðu og góðu aksturslagi sé hægt að komast ansi langt á eldsneytislítranum. Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri FÍB, segir að það sé nauðsynlegt að fólk geri sér grein fyrir því að ekki þurfi að kosta háar upphæðir að fara með fjölskylduna landshorna á milli. „Í sparaksturskeppninni eru bílar sem eru að ná til Akureyrar fyrir innan við 3.000 krónur. Með meðvituðu aksturslagi er hægt að ná verulegum sparnaði við akstur, ég tala nú ekki um þá staðreynd að meðvitaður akstur eykur umferðaröryggi til muna.“

 

Einn elsti bílafloti í Evrópu

Runólfur segir að það sé orðið nauðsynlegt að endurnýja bílaflota landsins. Íslenski bílaflotinn sé orðinn einn sá elsti í Evrópu og meðalaldur bílanna sé rúmlega 12 ár. „Ætli þetta sé ekki fylgifiskur kreppunnar. 10-15 ára bílar eyða margir hverjir rúmlega 20% meira eldsneyti en sambærilegir nýir bílar. Þar að auki eru nýrri bílar mun öruggari.“



Bílarnir sem taka þátt í sparaksturskeppninni koma frá bílaumboðum landsins, en enginn þeirra er eldri en 2012 árgerð. „Þetta er góð vísbending til neytenda. Þarna geta þeir séð svart á hvítu hverju bílinn er að eyða,“ segir Runólfur, sem býst við fyrstu bílunum í mark þá og þegar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×