Innlent

Fyrsta hótelinu fagnað á Patreksfirði

Kristján Már Unnarsson skrifar

Patreksfirðingar fagna á morgun opnun fyrsta hótelsins í bænum, sem jafnframt er það fyrsta í þorpum Barðarstrandarsýslu og skapar nítján störf. Um leið fær anddyri bæjarins upplyftingu, með endurnýjun byggingar sem hafði verið grotna niður.

Fyrir ellefu mánuðum þegar framkvæmdir hófust var allt þarna í drasli. Nú ganga menn inn í veglegt alþjóðlegt nútímahótel og þar sem áður voru frystihús og sláturhús, þar eru nú veitingasalir og gistiherbergi.

Ólafur Sæmundsson byggingarstjóri lýsir verkinu í viðtali í fréttum Stöðvar 2 en það tók aðeins 320 daga að breyta þessu í hótel. Herbergin eru 40 talsins. Nöfn herbergjanna eru sótt í örnefni beggja vegna Patreksfjarðar, - þau eru öll með baði og ýmist með útsýni út á fjörð eða upp í fjall. Þarna verða nítján starfsmenn í sumar og hótelstjórinn, 26 ára gamall Svíi, Jimmy Wallster, segir bókanir lofa góðu.

Fiskvinnslan Oddi og Fosshótel standa að verkinu í gegnum félagið Aðalstræti 100. Stjórnarformaðurinn Sigurður Viggósson segir Patreksfirðinga hafa fulla trú á að dæmið gangi upp.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×