Innlent

Almannavarnir vara við aurskriðum

Almannavarnir beina því til fólks að huga vel að aðstæðum í ljósi aurskriða sem hafa orðið undanfarið.
Almannavarnir beina því til fólks að huga vel að aðstæðum í ljósi aurskriða sem hafa orðið undanfarið.

Almannavarnir beina því til fólks að huga vel að aðstæðum í ljósi aurskriða sem hafa orðið undanfarið.

Í gær féll aurskriða úr Kinnarfelli í Köldukinn niður yfir þjóðveginn skammt norðan við bæinn á Ystafelli. Í morgun féll önnur skriða úr fellinu nær bæjunum en sú náði ekki yfir veginn. Þá féll skriða norðanmegin og utanvert við Seyðisfjörð í fyrrinótt.

Til fjalla á norðausturfjórðungi landsins er víða enn grunnt niður á frost. Á þessu svæði voru og eru jafnvel enn mikil snjóalög sem leysir nú hratt. Í ofanálag hefur svo verið töluverð úrkoma á þessu svæði síðustu daga. Við slíkar aðstæður verður þunnt og frostlaust jarðvegslag auðveldlega vatnsósa og getur þá skriðið af stað undan eigin þunga.

Spáð er lítilsháttar úrkomu á norðausturfjórðungi landsins í dag, á fimmtudag og á föstudag en síðan lítur út fyrir að þurrt verði mestmegnis á þessu svæði um helgina.

Það er viðbúið að fleiri skriður geti fallið næstu daga á svæðum þar sem aðstæður eru svipaðar og í Köldukinn. Ástæða er til að benda fólki sem er á ferð gangandi um hlíðar fjalla eða undir þeim að huga vel að aðstæðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×