Erlent

Mikilvægt skref í þágu kvenna

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Greinarhöfundur segir Jolie ekki fyrstu stjörnuna til að taka þessa ákvörðun en margar konur í hennar stöðu hafi ákveðið að halda því leyndu fyrir fjölmiðlum.
Greinarhöfundur segir Jolie ekki fyrstu stjörnuna til að taka þessa ákvörðun en margar konur í hennar stöðu hafi ákveðið að halda því leyndu fyrir fjölmiðlum. Mynd/Getty
Greinarhöfundur The Guardian skrifar um leikkonuna Angelinu Jolie í dag og segir hana hafa stigið mikilvægt skref í þágu kvenna með því að greina frá ákvörðun sinni um að láta fjarlægja brjóst sín.

„Hún ögrar þeirri þreyttu klisju um hvað gerir konur kynþokkafullar, og hvernig konur sem eru álitnar kynþokkafullar tala um líkama sinn,“ segir Hadley Freeman í greininni, og dáist greinilega að Jolie fyrir að tala opinskátt um málið.

„Hluti af því að vera kona er að horfast í augu við hættuna á brjóstakrabbameini og bregðast við því með viðeigandi hætti.“

Greinarhöfundur segir Jolie ekki fyrstu stjörnuna til að taka þessa ákvörðun en margar konur í hennar stöðu hafi ákveðið að halda því leyndu fyrir fjölmiðlum.

„Og er hægt að áfellast þær? Hvaða kona vill tala um brjóstnám í hverju einasta viðtali það sem eftir er? Hvaða kona myndi þola það að í hvert einasta skipti sem hún er mynduð, hvort sem um er að ræða á rauða dreglinum, í kvikmynd eða „papparössuð“ á ströndinni, grandskoða ókunnugir um allan heim líkama hennar til að sjá hversu mikið brjóstin hafa breyst? Brjóstnám hefur í för með sér gríðarlegan sársauka, bæði andlegan og líkamlegan, og forvitni almennings er ekki á það bætandi. Jolie tekur það á sig til að vekja athygli á sjúkdómnum, og hana ber að heiðra fyrir það.“

Greinina í heild sinni má lesa á vef The Guardian.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×