Fótbolti

Stelpurnar okkar bara á Eurosport?

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Mynd/Stefán

Engin íslensk sjónvarpsstöð hefur enn keypt sýningarréttinn á Evrópumeistaramóti kvenna í knattspyrnu sem fer fram í Svíþjóð í sumar.

Ísland tryggði sér þátttökurétt á mótinu í lok október síðastliðins og því hefur það legið fyrir í sjö mánuði að Ísland muni keppa í lokakeppninni sem hefst þann 10. júlí næstkomandi.

Eurosport keypti sýningarréttinn að keppninni af Knattspyrnusambandi Evrópu en þá rás má finna á fjölvarpi Stöðvar 2. Það er þó ekki endilega víst að allir leikir Íslands verði sýndir á þeirri rás.

Páll Magnússon, útvarpsstjóri, staðfesti við Vísi í dag að Rúv hefði boðið í sýningarréttinn en að enn væri ekki komin niðurstaða í málið. Ari Edwald, forstjóri 365, sagði við Vísi í gær að 365 hefði ekki boðið í réttinn.

„Við eigum enn eftir að fá endanlegt svar,“ sagði Páll við Vísi í morgun. „Það liggur fyrir tilboð frá okkur en við vonum auðvitað að þetta muni falla til okkar.“

Páll segir allur gangur á svona málum og að þau geti dregist á langinn. „Þetta er frekar miskunnarlaus markaður og seljendur reyna að þrýsta verðinu upp eins og þeir mögulega geta.“

Hann segir það kappsmál fyrir Rúv að sýna leikina hér á landi með íslenskum lýsendum og annarri umfjöllun sem fylgir keppni sem þessari. „Við viljum framleiða þetta efni fyrir Íslendinga, enda allt öðruvísi áferð á því á Eurosport. Við viljum fá þessa keppni enda verður gaman að fylgjast með stelpunum úti.“

Páll á von á því að málin skýrist á allra næstu dögum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×