Innlent

Kaupa hey fyrir tvær milljónir

Ingveldur Geirsdóttir skrifar

Hjónin á Steindyrum í Svarfaðardal eru bæði með kúa- og sauðfjárbú. Sauðburður hófst hjá þeim fyrir þremur vikum síðan og enn er féð hýst inni og í hólfi við fjárhúsið. Vegna snjóalaga sjá þau ekki fram á að geta sleppt fénu út á tún í bráð. 

„Við höfum bara rekið inn á kvöldin og haft þau í þessu litla hólfi yfir daginn. Girðingarnar eru ennþá á kafi þannig að ærnar leita eitthvað strax ef þær mögulega komast í burtu. Þannig að maður verður að reka allt  inn á kvöldin svo þetta sé ekki á veginum  eða ofan í skurðum og maður fari ekki að missa lömb út af því," segir Gunnhildur Gylfadóttir bóndi á Steindyrum í Svarfaðardal.

Síðasta sumar var þurrt hjá bændum í dalnum og heyfengur því lítill, margir eru búnir með forðann sinn og hafa því þurft að kaupa hey.

„Við erum sjálf búin að kaupa 80 rúllur. Hér í Svarfaðardalinn er búið að kaupa sennilega rúmlega 600 rúllur, síðustu þrír vagnarnir eru að koma nú um helgina af heyi," segir Gunnhildur.

Tíðarfarið eykur vinnálagið á bændur og kostnaðinn við búskapinn.

„Þetta er þungur baggi þar sem menn hafa kannski þurft að kaupa hey fyrir tvær milljónir. Það munar um ansi mikið í pyngjunni þegar það  þarf kannski að leggja í mikil önnur fjárútlát út af þessu erfiða vori. Eins og girðingar og mikil frækaup ef það þarf að endurvinna tún," segir Gunnhildur en hver rúlla kostar tíu til ellefu þúsund krónur. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×