Innlent

Þeim var gefið nauðgunarlyf

María Lilja Þrastardóttir skrifar
Tilfinningin ömurleg.
Tilfinningin ömurleg. Getty
Mikill fjöldi fólks kemst undan eftir að hafa verið byrluð ólyfjan á skemmtistað. Erfitt er að greina efnin í blóði en slíkt er ekki gert nema fórnarlambið hafi verið beitt ofbeldi. Hópur fólks sem Fréttablaðið ræddi við segir það ekki síður glæp að taka yfir meðvitund einstaklings án hans vitundar. Þetta fólk tilheyrir týndum hópi í umræðunni um ofbeldi.

Í nýútkominni skýrslu Stígamóta fyrir árið 2012 kemur fram mikil aukning á meðal þeirra sem leituðu til samtakanna sökum lyfjanauðgunar. Fréttablaðið greindi frá málinu fyrr í mánuðinum og ræddi meðal annars við fórnarlamb slíkrar nauðgunar.

Erfitt er að meta hversu oft fólk kemst undan slíkum aðstæðum. Eftir mjög stutta leit blaðakonu komu þó upp tugir dæma, karla og kvenna, sem öll höfðu svipaða sögu að segja. Flest komust þau heim með aðstoð vina, kunningja eða jafnvel sjúkraflutningamanna. Fréttablaðið fékk nokkur þeirra til að segja frá reynslu sinni opinberlega. Öllum leið þeim líkt og traðkað hefði verið á friðhelgi þeirra og það tók sum þeirra tíma að vinna úr reynslu sinni.

Margrét Erla Maack.
Airwaves-kjörlendið

Sjónvarpskonan Margrét Erla Maack er ein þeirra sem búa yfir óhugnanlegri reynslu. Henni var byrluð ólyfjan á Airwaves-hátíðinni árið 2011. Margrét drakk einn drykk á meðan hún beið tveggja vina sinna. Skömmu eftir komu þeirra tók henni að líða undarlega. 

„Ég segi við annan þeirra að ég hafi aldrei verið svona drukkin, mér líði mjög illa og ætli að fara heim. Fimm til tíu mínútum seinna missi ég fótanna og þeir styðja mig út undir vegg. Ég bulla einhverja vitleysu og þeir hringja á sjúkrabíl," segir Margrét. 

Á slysavarðstofunni hafi hún verið tiltölulega út úr heiminum. Annar vinur hennar, hjúkrunarfræðingur á vakt, segir henni að líklegast hafi henni verið gefið eitthvað lyf. Þegar hún kemst til meðvitundar er henni greint frá því að dýrt sé að kanna blóðið og þar sem ekkert annað saknæmt hafi átt sér stað þurfi hún að greiða fyrir það sjálf. 

„Ég spurði hvort fleiri stúlkur hefðu verið á deildinni í sama ástandi og ég og svarið var já og meira að segja ein af sama skemmtistað. Airwaves er víst algjört kjörlendi fyrir þetta því fólk fer gjarnan á mis og hópar splittast upp. Mér fannst mjög óþægilegt að einhver gæti haft svona mikil áhrif á skynjun mína og meðvitund og að það sé bara eitthvað „beisikk" að „þetta gerist bara á svona hátíðum"."

Andri Hrafn Unnarsson.
Þurfti áfallahálp

Andri Hrafn Unnarsson er fatahönnunarnemi við Listaháskóla Íslands. Honum var byrlað lyf í síðasta mánuði á skemmtistað í miðborginni. Hann lagði frá sér drykk í örskotsstund. Þegar hann lýkur við drykkinn finnur hann skömmu síðar hvernig hann tekur að missa mátt í fótunum. 

„Það verður svo erfiðara og erfiðara að halda augunum opnum. Ég náði að koma mér bak við barinn og skríð upp á borð sem þar er á bak við. Ég tek að kasta upp og berst við að halda mér vakandi," segir Andri og útskýrir að víman hafi verið stæk og ólík áfengisvímu. Hann var máttlaus og dofinn en samt með nokkra meðvitund. Hann komst síðar heim með aðstoð vina sinna. 

„Mér hefði aldrei dottið í hug að ég myndi nokkurn tímann lenda í þessu. Það er greinilega nauðsynlegt að vera meðvitaður um að í kringum þig er fólk sem svífst einskis." Andri greinir blaðakonu frá því að eftir reynsluna hafi honum liðið mjög illa. Hann hafi til að mynda þurft að sækja áfallahjálp dagana á eftir. Hann segir einnig að erfitt sé að ímynda sér hvað hefði gerst ef ekki hefði verið fyrir snarræði vina á staðnum. 

„Ég vil helst ekki hugsa þá hugsun til enda."

Lyfin eru nær eingöngu notuð í þeim tilgangi að sljóvga manneskju og nauðga henni. Það þekkist þó einnig að þau séu notuð við aðra glæpi; rán eða líkamsárásir. Enginn vafi liggur á því að glæpirnir eru þaulskipulagðir og ákveðnir með löngum fyrirvara.

Arnar Ingi Viðarsson.
Svart hyldýpi

Arnar Ingi Viðarson, grafískur hönnuður, lenti eins og aðrir viðmælendur blaðsins í því að einhverju var laumað í drykkinn hans á skemmtistað í miðborginni. Hann þáði drykk af mönnum sem hann hélt að væru ferðamenn frá Ítalíu. Skömmu eftir inntöku tók hann að svima, hann segist muna lítið eftir það, þangað til að stúlka sem hann kannaðist við fann hann meðvitundarlítinn og kom honum undir læknishendur. 

„Þessi nótt er í minni mínu ekkert nema svart hyldýpi. Eftir drykkinn tók ég að haga mér einkennilega. Ég varð áttavilltur og sljór og sífellt að ráfa burt frá vinum mínum. Þeir týndu mér fljótlega eftir það. Hvað gerðist svo hef ég enga hugmynd um, eins óhugnanlega og það hljómar. Ég man ekkert fyrr en gömul vinkona fann mig ofan í tröppum á Hverfisgötunni með stórt sár á fæti. Mér skilst að ég hafi verið nánast óskiljanlegur, bæði í tali og fasi og gat hvorki hreyft legg né lið. Hún fór með mig upp á spítala þar sem læknir á vakt reyndi að fá upp úr mér hvað hefði gerst og á hverju ég væri eiginlega. Ég náði að stynja upp úr mér að ég hefði drukkið eitthvað sem ég vissi ekki hvað var, hjá fólki sem ég þekkti ekki og það var nóg til að hann vissi hvað var á seyði." 

Arnar segist seinna hafa frétt að hann hafi ekki verið sá eini þetta kvöld sem lent hafði í mönnunum. Tveir aðrir piltar þáðu drykk frá þeim og voru rændir eftir að hafa verið veitt eftirför. Hann segir það ótrúlega heppni að ekki fór verr í hans tilfelli.

Ósk Gunnlaugsdóttir.
Missti stjórn eftir einn bjór

Ósk Gunnlaugsdóttur kvikmyndagerðarkonu var byrluð ólyfjan fyrir nokkrum árum. Þetta var í fyrsta skipti sem hún fór út að skemmta sér eftir að pabbi hennar lést. Hún segist ekki hafa treyst sér til að drekka vegna þess. Hún fékk sér einn bjór á skemmtistað með afleiðingum sem hún segist hafa skammast sín fyrir og þar af leiðandi ýtt burt úr minningunni. 

„Ég ákvað að fá mér einn Wildbrew þó að ég væri á bíl. Ég man ekki nákvæmlega hvað ég gerði, en við dönsuðum stelpurnar og svo settumst við niður við borð með nokkrum vinnufélögum. Stuttu eftir að ég settist fór mér að líða illa. Ég ákvað að fara á klósettið svona aðeins að ná mér. Þar hertist hjartslátturinn og mig svimaði og ég vissi ekkert hvað var að gerast. Ég sagði vinkonu minni að mér liði illa og ég yrði að fara heim. Ég komst hins vegar ekki út af staðnum þar sem ég missti alla stjórn. Ég man óljóst eftir því að hafa verið sett inn í bíl yfirmanns míns og ég man næst eftir mér uppi á Slysó. Þar var ekkert gert, engar prufur teknar og það var komið fram við mig eins og ég væri bara drukkin. Ég talaði svo ekki um þetta við nokkurn mann því það var einhver skömm sem fylgdi þessu."
Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.