Erlent

Atvinnuleysi á Spáni nálgast 30 prósent

Kjartan Hreinn Njálsson skrifar
nordicphotos/getty
Atvinnuleysi á Spáni heldur áfram að hækka og mældist 27.2 prósent á fyrsta ársfjórðungi þessa árs. Þetta þýðir að rúmlega sex milljón manns eru nú án atvinnu í landinu.

Spánn er fjórða stærsta hagkerfi evrusvæðisins. Landið hefur átt í gríðarlegum erfiðleikum síðustu ár og fór afar illa út úr efnahagskreppunni. Þannig mældist atvinnuleysi á Spáni 7.9 prósent um mitt ár 2007.

Mariano Rajoy, forsætisráðherra Spánar, mun kynna nýjar niðurskurðaraðgerðir í dag. Af því tilefni hefur verið blásið til mótmælagöngu í Madrid í dag. Forsætisráðherrann lýsti því yfir á þingfundi í gær að horfurnar fyrir árið væru sannarlega slæmar, engu að síður væri ljóst að efnahagur Spánar myndi rétta úr kútnum á næstu misserum.

Atvinnuleysistölurnar á Spáni nú eru þær hæstu síðan Francisco Franco var og hét og lýðræðisumbæturnar hófust þar í landi með dauða hans árið 1976.

En staða vinnumála er ekki aðeins slæm á Spáni. Frakkland, næst stærsta efnahagsveldi evrusvæðisins, mun birta atvinnuleysistölur seinna í dag. Sérfræðingar eru sannfærðir um að hlutfall atvinnulausra þar í landi hafi snarhækkað á síðasta ársfjórðungi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×