Erlent

Kerry: Efnavopn notuð í Sýrlandi

Kjartan Hreinn Njálsson skrifar
Hamid Karzai, forseti Afganistan, John Kerry og Asfhaq Parvez, yfirmaður herafla Pakistan.
Hamid Karzai, forseti Afganistan, John Kerry og Asfhaq Parvez, yfirmaður herafla Pakistan. MYND/AP
Sýrlenski stjórnarherinn hefur að minnsta kosti tvisvar beitt efnavopnum gegn uppreisnarmönnum. Þetta fullyrti John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, í dag.

Í morgun tilkynnti talsmaður Hvíta hússins í Washington að traustar vísbendingar væru um að sýrlensk stjórnvöld hefðu fyrirskipað árásir á uppreisnarhópa þar sem sarín-gas var notað.

Sarín er banvænt taugaeitur sem ræðst á taugakerfið og lamar starfsemi þess.

Tíu ára gamall, sýrlenskur flóttamaður í flóttamannabúðunum í Mafraq í Jórdan.MYND/AP
Yfirvöld í Bandaríkjunum hafa hingað til forðast þátttöku í óöldinni sem geisað hefur í Sýrlandi síðustu ár. Notkun efnavopna af hálfu þarlendra stjórnvalda gæti þó breytt þeirri afstöðu.

Það var varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, Chuck Hagel, sem fyrst vakti athygli á málinu fyrr í dag. Hann er nú í opinberri heimsókn í Abú Dabí. Þar sagði Hagel að það væri mat aðila úr leyniþjónustu Bandaríkjanna að sýrlenski stjórnarherinn hefði beitt sarín-gasi gegn uppreisnarmönnum.

Uppreisnin gegn Bashar al-Assad, forseta Sýrlands, hófst fyrir rúmum tveimur árum. Liðsmenn andspyrnuhópanna eru af ýmsum þjóðernum en að stærstum hluta til sýrlenskir uppreisnarmenn.

Talið er að hátt í 70 þúsund manns, uppreisnarmenn og stjórnarhermenn, hafi fallið í átökunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×