Fótbolti

Cardiff upp í ensku úrvalsdeildina

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Heiðar og Aron fagna eftir leikinn í kvöld.
Heiðar og Aron fagna eftir leikinn í kvöld. Mynd/Instagram
Aron Einar Gunnarsson, Heiðar Helguson og félagar þeirra í Cardiff tryggðu sér í kvöld sæti í ensku úrvalsdeildinni er liðið gerði markalaust jafntefli við Charlton á heimavelli.

Cardiff dugði eitt stig til að gulltryggja sæti sitt í deild þeirra bestu og fögnuðu því heimamenn jafnteflinu vel og innilega.

Aron Einar Gunnarsson spilaði allan leikinn fyrir Cardiff að venju en Heiðar Helguson var ekki með í dag vegna meiðsla.

Cardiff er með 84 stig á toppnum og sjö stiga forystu á Hull þegar þrjár umferðir eru eftir. Bristol City féll hins vegar úr deildinni en það varð endanlega ljóst eftir 1-0 tap gegn Birmingham.

Björn Bergmann Sigurðarson var í byrjunarliði Wolves sem vann Hull, 1-0. Birni var skipt út af á 89. mínútu leiksins. Eggert Gunnþór Jónsson var ekki í hópnum hjá Wolves sem kom sér úr fallsæti með sigrinum í kvöld.

Rotherham vann mikilvægan útisigur á Bradford, 2-0, í ensku D-deildinni. Kári Árnason lék allan leikinn fyrir Rotherham sem er í þriðja sæti deildarinnar en þrjú efstu liðin komast beint upp í C-deildina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×