Fótbolti

Spilltir dómarar þáðu vændi

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Landslið Líbanon.
Landslið Líbanon. Nordicphotos/Getty
Dómarartríó frá Líbanon er sakað um að hafa þegið vændi í skiptum fyrir að hagræða úrslitum í leik í Asíubikarnum á dögunum.

FIFA-dómarinn Ali Sabbagh og aðstoðarmenn hans, Ali Eid og Abdallah Taleb, eru taldir að hafa samþykkt að hagræða úrslitum í viðureign Tampines Rovers frá Singapúr og East Bengal frá Indlandi.

Dómurunum var í snarhasti skipt út og nýir menn kallaðir til starfa nokkrum klukkustundum fyrir leikinn.

Þremenningarnir neita allir sök en beiðni þeirra um að verða látnir lausir gegn tryggingu var hafnað. Þeir eiga yfir höfði sér tíu milljóna króna sekt og allt að fimm ára fangelsi verði þeir fundnir sekir. Réttað verður í málinu um miðjan júní.

Eric Ding Si Yang frá Singapúr, sem talinn er hafa boðið dómurunum vændi í skiptum fyrir veitta aðstoð, var sleppt gegn um 20 milljóna króna tryggingagjaldi. Ekki liggur fyrir hvenær réttað verður yfir honum.

Singapúr er undir smásjá Evrópulögreglunnar Europol. Lögreglan tilkynnti í febrúar að hundruð leikja í landinu væru til rannsóknar þar sem grunur léki á að úrslitum hefði verið hagrætt.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Líbanon er í sviðsljósinu á knattspyrnusviðinu á árinu. Knattspyrnusamband landsins refsaði 24 leikmönnum fyrr á árinu fyrir hagræðingu úrslita. Tveir landsliðsmenn voru dæmdir í ævilangt bann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×