Innlent

Telur Bjarnarflagsvirkjun ekki ógna lífríki Mývatns

Forstjóri Landsvirkjunar segir unnt að reisa Bjarnarflagsvirkjun án þess að lífríki Mývatns sé á nokkurn hátt stefnt í hættu. Hann útilokar ekki nýtt umhverfismat en segir að allar athugasemdir hafi legið fyrir þegar Alþingi samþykkti virkjunina fyrir þremur mánuðum.

Mótmæli náttúruverndarsamtaka gegn Bjarnarflagsvirkjun hafa verið áberandi frá því í haust en þrátt fyrir þau samþykkti Alþingi rammaáætlun í janúar þar sem grænt ljós var gefið á þessa umdeildu virkjun. Nú, þremur mánuðum síðar, tekur Steingrímur J. Sigfússon atvinnuvegaráðherra undir kröfur um að Landsvirkjun fresti framkvæmdum í Bjarnarflagi. Í kappræðum Stöðvar 2 í gærkvöldi kom fram hjá Steingrími að hann vildi að dokað yrði við með Bjarnarflag en sjónum beint að Þeistareykjum í staðinn.

Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, segir þrjá valkostir til að afla orku vegna stóriðju á Bakka; að styrkja flutningskerfið, að virkja í Bjarnarflagi eða Þeistareykjum, og býst við að stjórn fyrirtækisins ákveði í sumar hvaða kostur verði valinn.

Hann viðurkennir að umhverfismat Bjarnarflagsvirkjunar sé orðið nokkuð gamalt. Allar ábendingar hafi hins vegar verið komnar fram þegar rammaáætlun var samþykkt.

Spurður hvort til greina komi að setja virkjunina aftur í umhverfismat kveðst Hörður ekki útiloka slíkt en ítrekar um leið að allar athugasemdir hafi verið komnar fram þegar rammaáætlun var samþykkt.

Hörður kveðst skilja áhyggjur fólks vegna Mývatns. Þannig áformi Landsvirkjun ekki lengur 90 megavatta virkjun í Bjarnarflagi, heldur 45 megavatta. Hann segir Landsvirkjun telja að unnt sé að fara í framkvæmdir við Bjarnarflagsvirkjun án þess að lífríki Mývatns sé á nokkurn hátt stefnt í hættu.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×