Fótbolti

Pétur er stoltur af mér

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Alfreð Finnbogason segir að það sé mikill heiður fyrir sig að hafa náð að skrifa sig inn í íslenska knattspyrnusögu í kvöld.

Alfreð skoraði mark Heerenveen í 1-1 jafntefli gegn Ajax og þar með sitt 24. mark á tímabilinu. Enginn Íslendingur hefur skorað fleiri mörk í efstu deild en gamla metið setti Pétur Pétursson fyrir 33 árum síðan.

„Ég er mjög stoltur af þessu. Maður áttar sig kannski ekki á þessu öllu saman í dag en kannski kemur það í ellinni, þegar maður lítur til baka,“ sagði Alfreð í samtali við Vísi í kvöld.

Pétur þjálfaði Alfreð hjá Breiðabliki á sínum tíma þegar sá fyrrnefndi var þjálfari 2. flokks. Hann var einnig aðstoðarþjálfari A-landsliðsins þegar að Alfreð steig sín fyrstu spor þar.

„Hann þjálfaði mig í þrjú ár og ég hef engan sérstakan móral yfir því að slá metið hans,“ sagði Alfreð í léttum dúr. „En hann er búinn að senda mér skilaboð og er stoltur af mér.“

En skyldi Pétur hafa kennt honum allt sem hann kann í þessum fræðum? „Þetta er klassísk spurning og hann á vissulega sinn þátt í þessu. En það er gott að vera með þjálfara sem skilur hlutverkið manns,“ segir Alfreð en núverandi þjálfari hans er Marco van Basten, einn besti sóknarmaður allra tíma.

„Maður reynir bara að kroppa sem mest af þeim og njóta þess að spila undir hans stjórn á meðan þessu varir. Ég gæti ekki verið ánægðari.“

Heerenveen er í sjöunda sæti hollensku deildarinnar og í góðri stöðu fyrir umspilskeppni um Evrópusæti. Þangað fara liðin sem lenda í 5.-8. sæti deildarinnar.

„Tímabilið gæti því lengst um tvær vikur. Við stefnum að því að komast í þessa keppni.“


Tengdar fréttir

Alfreð bætti met Péturs

Alfreð Finnbogason er búinn að bæta 33 ára gamalt markamet Péturs Péturssonar en það gerði hann með því að skora í leik Heerenveen gegn Ajax, toppliði hollensku úrvalsdeildarinnar, í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×