Fótbolti

Alfreð bætti met Péturs

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Alfreð Finnbogason í leik með Heerenveen.
Alfreð Finnbogason í leik með Heerenveen. Nordic Photos / Getty Images
Alfreð Finnbogason er búinn að bæta 33 ára gamalt markamet Péturs Péturssonar en það gerði hann með því að skora í leik Heerenveen gegn Ajax, toppliði hollensku úrvalsdeildarinnar, í kvöld. Liðin skildu jöfn, 1-1.

Alfreð er nú kominn með 24 mörk í Hollandi í vetur en Pétur skoraði 23 mörk fyrir Feyenoord tímabilið 1979-80.

Enginn Íslendingur hefur nú skorað fleiri mörk í efstu deild, hvorki hér á landi eða í Evrópu, en Alfreð sem hefur verið sjóðheitur í Hollandi allt tímabilið.

Markið skoraði Alfreð á 53. mínútu og jafnaði hann þar með metin fyrir Heerenveen. Hann hafði fengið ágætt færi í stöðunni 0-0 en nýtti það ekki.

Alfreð var valinn maður leiksins og var skipt af velli í lok venjulegs leiktíma. Heerenveen er í sjöunda sæti deildarinnar með 42 stig en Ajax er á toppnum með 67 stig og sex stiga forystu á næsta lið.

Kolbeinn Sigþórsson var í byrjunarliði Ajax og var tekinn af velli á 82. mínútu.

Flest deildarmörk íslensks leikmanns á einu tímabili í efstu deild í Evrópu:

24 - Alfreð Finnbogason, Heerenveen 2012-2013

23 - Pétur Pétursson, Feyenoord 1979-1980

21 - Atli Eðvaldsson, Fortuna Düsseldorf 1982-1983

19 - Arnór Guðjohnsen, Anderlecht 1986-87

19 - Teitur Þórðarson, Lens 1981-82

18 - Arnar Grétarsson, Lokeren 2002-03

18 - Veigar Páll Gunnarsson, Stabæk 2006




Fleiri fréttir

Sjá meira


×