Íslenski boltinn

Fylkismenn semja við tvö varnartröll

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kristján Hauksson og Agnar Bragi Magnússon handsala hér samninginn.
Kristján Hauksson og Agnar Bragi Magnússon handsala hér samninginn. Mynd/Twitter/Magnús Sigurbjörnsson
Varnartröllin Kristján Hauksson og Agnar Bragi Magnússon munu spila með Fylki í Pepsi-deildinni í sumar en báðir skrifuðu þeir undir samning í dag. Þetta kemur fram á fótbolti.net.

Kristján Hauksson, sem er 27 ára miðvörður, hefur verið fyrirliði Fram undanfarin sumur en ákvað að hætta í fótbolta fyrir rúmum mánuði. Hann hætti síðan við að hætta og fór að æfa með Fylki en Kristján spilaði á sínum tíma undir stjórn Ásmundar Arnarssonar hjá Fjölni.

Agnar Bragi Magnússon er 26 ára miðvörður sem er uppalinn í Fylki en hann hefur spilað með Selfossi undanfarin sumur. Agnar Bragi náði þó bara að leika þrjá leiki með Selfossliðinu í fyrrasumar þar sem hann glímdi við meiðsli. Agnar Bragi er kominn á fulla ferð á ný og spilaði með 2. deildarmeisturum Lynn University í bandaríska háskólaboltanum í vetur.

Meðal annarra leikmanna sem eru komnir í Fylki eru Heiðar Geir Júlíusson frá Ängelholms, Sverrir Garðarsson frá Haukum, Tryggvi Guðmundsson frá ÍBV og Viðar Örn Kjartansson frá Selfossi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×