Fótbolti

Alfreð og félagar töpuðu - fyrsti leikur Arons

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Alfreð Finnbogason.
Alfreð Finnbogason. Mynd/Nordic Photos/Getty
Fimm leikja sigurganga Heerenveen í hollensku úrvalsdeildinni endaði í dag þegar liðið tapaði 3-1 á útivelli á móti Groningen. NEC og AZ gerðu á sama tíma 1-1 jafntefli í Íslendingaslag.

Alfreð spilaði allan leikinn í 3-1 tapi Heerenveen á móti Groningen en Heerenveen skoraði sjálfsmark á 3. mínútu og Groningen komst síðan í 2-0 með marki úr vítaspyrnu á 42. mínútu.

Varamaðurinn Lukás Marecek minnkaði muninn á 70. mínútu en það var síðan Michael de Leeuw sem innsiglaði sigur Groningen þremur mínútum fyrir leikslok.

Jóhann Berg Guðmundsson og Aron Jóhannsson komu báðir inn á sem varamenn þegar AZ Alkmaar gerði 1-1 jafntefli á útivelli á móti Guðlaugi Victori Pálssyni og félögum í NEC Nijmegen.

Guðlaugur Victor lék allan leikinn með NEC sem var manni færri síðasta hálftíma leiksins. Jóhann berg kom inn á 60. mínútu og Aron kom inn þrettán mínútum fyrir leikslok í sínum fyrsta leik með AZ.

Adam Maher kom AZ í 1-0 á 17. mínútu en Kevin Conboy jafnaði tveimur mínútum síðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×