Fótbolti

Flösku kastað í leikmann í Svíþjóð

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Leikur Djurgården og Mjällby í sænsku úrvalsdeildinni var flautaður af í kvöld eftir að bjórflösku var kastað í leikmann síðarnefnda liðsins.

Atvikið gerðist undir lok fyrri hálfleiks en Mjällby var þá nýbúið að skora umdeilt mark. Leikmaður Djurgården virtist meiðast á miðjun vellinum en leikurinn hélt áfram og Mjällby skoraði í næstu sókn.

Á meðan leikmenn Mjällby fögnuðu markinu létu stuðningsmenn Djurgården aðskotahlutum rigna yfir þá - bjórflöskum, ávöxtum og smámynt.

Gbenka Arakoyo, leikmaður Mjällby, virtist fá flösku í sig. Dómarinn stöðvaði þá leikinn og 45 mínútum síðar tók hann þá ákvörðun að flauta hann af.

„Það er erfitt að taka þessu enda alvarlegt mál. Mér finnst þetta mjög leitt, eins og 99,99 prósent þeirra sem voru á leiknum," sagði Tommy Jacobson, stjórnarformaður Djurgården.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×