Enski boltinn

Leikmenn Manchester United sóttir í einkaflugvélum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Shinji Kagawa, Javier Hernández og Patrice Evra.
Shinji Kagawa, Javier Hernández og Patrice Evra. Mynd/Nordic Photos/Getty
Sir Alex Ferguson, knattspyrnustjóri Manchester United, leggur mikla áherslu á að leikmenn hans skili sér sem allra fyrst úr landsliðsverkefnum sínum. Svo mikla að Manchester United mun leggja út í mikinn kostnað svo hægt sé að senda einkaflugvélar eftir landsliðsleikmönnum félagsins.

Manchester United spilar tvo leiki með 48 klukkutíma millibil um næstu helgi, fyrst á móti Sunderland í ensku úrvalsdeildinni á laugardag og svo á móti Chelsea í enska bikarnum á mánudaginn.

Shinji Kagawa er staddur í Japan og Javier Hernández er í Mexíkó en þeir verða báðir sóttir til þess að þeir verði til taks um helgina. „Nú snýst þetta allt um ferskleika og að halda ákafa og ákefð þegar leikirnir koma með stuttu millibili," sagði Sir Alex Ferguson viðtali við Mirror.

„Nú skiptir enn meira máli að ég velji rétta liðið það er liðið sem er ferkast þá stundina. Það skiptir ekki aðalmáli að velja besta liðið heldur liðið með ferskustu leikmennina," sagði Ferguson.

„Það verður vandamál að fá leikmenn strax til baka eftir landsleikjahlé þar sem þeir hafa spilað tvo leiki og farið í löng flug. Þetta á sérstaklega við þá Chicharito í Mexíkó og Shinji Kagawa sem er með japanska landsliðinu í Jórdaníu. Við höfum því gert ráðstafanir um að sækja nokkra leikmenn með einkaflugvélum þannig að þeir komist strax heim án mikill óþæginda," sagði Ferguson.

„Leikmenn eins og Ryan Giggs, Anderson, Nemanja Vidic, Alexander Buttner og Rafael sem fóru ekki burtu í landsleikjahléinu verða lykilmenn fyrir okkur í næstu leikjum. Paul Scholes er líka farinn að æfa á ný og mun hjálpa okkur," sagði Ferguson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×